Sæstrengir lagðir milli æ fleiri landa

Höfuðstöðvar Landsvirkjunar.
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á meðan íslensk stjórnvöld eru að velta sæstreng til Bretlands fyrir sér þá eru Norðmenn komnir æði langt í sínum sæstrengsmálum. Fyrir eru þeir með þrjá strengi milli Noregs og Danmerkur og nýverið tilkynntu þeir samning við Þjóðverja um nýjan 500 km langan sæstreng á milli Noregs og Þýskalands sem ætlunin er að verði kominn í gagnið árið 2020. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að strengurinn yrði tilbúinn 2018. Flutningsgeta strengsins yrði um 1.400 MW.

Það eru Statnett (Landsnetið norska), TenneT og KfW Bank sem gera samninginn en um er að ræða fjárfestingu upp á allt að tvo milljarða evra, jafnvirði um 300 milljarða króna. Statnett er einnig með áform um sæstreng til Bretlands, í samstarfi við National Grid, sem yrði ríflega 700 km langur og tilbúinn árið 2020. Jafnframt áformar Statnett fjórða strenginn til Danmerkur, Skagerrak 4, í samvinnu við Energinet. Flutningsgeta strengjanna þriggja sem fyrir eru er um 1.000 MW en fer í 1.700 MW með nýja strengnum.

Bretar áhugasamir

Sem kunnugt er hafa hugmyndir verið uppi um að leggja sæstreng til að flytja raforku á milli Íslands og Bretlands, með flutningsgetu upp á 700-900MW. Sérstök verkefnisstjórn hóf nýverið störf við að kanna hagkvæmni á slíkum streng en í skýrslu ráðgjafahóps til iðnaðarráðherra árið 2013 var mælt með því að skoða málið frekar og kanna þjóðhagslega hagkvæmni sæstrengs. Hafa Bretar sýnt þessu mikinn áhuga en Viðskiptablaðið greindi frá því í vikunni að breski orkumálaráðherrann hefði sent Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, bréf í janúar sl. og óskað eftir fundi um lagningu sæstrengs. Ekki er vitað hvenær sá fundur fer fram en stefnt er að því að ljúka hagkvæmniathugun á þessu ári.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir vissulega margt að gerast í sæstrengsmálum í Evrópu í dag, sér í lagi hjá Norðmönnum. „Reynsla Norðmanna af sæstrengjum er orðin mjög löng og þeir virðast hafa markað sér mjög skýra stefnu í að nýta þessi tækifæri. Norðmenn hafa jafnframt verið mjög farsælir í að þróa sína auðlindastefnu,“ segir hann.

Aðspurður segir Hörður enga hættu á að Íslendingar dragist aftur úr, eftir því sem fleiri sæstrengir verði lagðir. Þetta sé bara byrjunin á því að raforkukerfi í heiminum muni tengjast meira sín á milli. Að því sé mikið hagræði, þannig náist aukin verðmætasköpun, aukið orkuöryggi og bætt nýting auðlinda.

Bendir Hörður á að fjölmörg önnur ríki í Evrópu séu að skoða tengingar við önnur lönd, eins og Danir, Svíar, Írar, Frakkar og Spánverjar. Þessi ríki horfi mjög til Bretlands og þeirra tækifæra sem þar séu. Fyrirsjáanlegt er að Bretar þurfa að gera mikið átak í sínum raforkumálum og auka sitt orkuöryggi.

Spurður hvenær hann sjái fyrir sér að sæstrengur til Bretlands muni líta dagsins ljós segir Hörður að það sé alfarið undir Íslendingum komið. „Tæknilega séð er þetta hægt en það er bara ákvörðun Íslendinga hvenær við viljum nýta okkur þetta einstaka tækifæri. Boltinn er hjá stjórnvöldum,“ segir Hörður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert