Vill vegi aftur á áætlun í Héraði

Þórður Már Þorsteinsson
Þórður Már Þorsteinsson

Vegagerðin virðist vera að eyða miklu púðri í að fylgjast með því þegar jarðir fara í eyði, eða að minnsta kosti þegar föst búseta leggst af á þeim. Þetta segir Þórður Már Þorsteinsson, bæjarfulltrúi í Fljótsdalshéraði. 

Vegagerðin ákvað í byrjun febrúarmánaðar að fella niður Bakkagerðisveg, Eyjólfsstaðaveg, Grundarveg, Hleinargarðsveg, Hreiðarsstaðavegur, Grímsárvirkjunarveg og Hreimsstaðaveg af vegaskrá.

Þórður segir Vegagerðina eldsnögga „að kippa vegunum að þessum jörðum út af vegaskrá svo ekki þurfi að eyða fjármunum í viðhald á þeim.“ 

„Nú hefur Vegagerðin gengið svo langt að vilja kippa nokkrum vegum af vegaskrá á Héraði, en af þeim eru að minnsta kosti tveir þar sem atvinnustarfsemi er sannarlega stunduð,“ segir Þórður. 

Þórður segir að ákvæðið sem Vegagerðin beri fyrir sig, um að það sé ekki föst búseta á þeim stöðum sem vegirnir liggi að, sé alveg rétt. „En við teljum að hér sé Vegagerðin að túlka þetta ákvæði of rúmt. Sannarlega er atvinnustarfsemi á þessum stöðum, á Hreiðarsstöðum er sauðfjárbúskapur, í Grímsá er rekið orkumannvirki, nýstandsett, og á Eyjólfsstöðum er rekin  kirkjumiðstöð,“ segir Þórður.

Málið var tekið fyrir hjá bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs á miðvikudag. Var þar samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að bæjarstjórnin vænti þess að vegir, sem áður voru á vegaskrá Vegagerðarinnar, verði aftur settir á vegaskrá þegar búseta breytist.

„Við erum því einfaldlega ósammála Vegagerðinni um túlkun þessa ákvæðis, og teljum hana ganga of langt í þessum efnum,“ segir Þórður

mbl.is

Bloggað um fréttina