Lögreglumanninum vikið frá störfum

Handtakan á Laugaveginum.
Handtakan á Laugaveginum.

Lögreglumanninum sem í lok síðasta árs hlaut dóm í Hæstarétti fyrir líkamsárás og brot í starfi verður vikið frá störfum frá og með næstu mánaðamótum. Manninum var tilkynnt um þetta fyrr í dag á fundi með Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.

Dómur féll í Hæstarétti um miðjan desember en maðurinn var ákærður vegna handtöku konu í miðborg Reykjavíkur í júlí árið 2013. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars að lögreglumaðurinn hefði farið offari við handtökuna og beitt konuna meira valdi en tilefni var til. Myndskeið af handtökunni var birt á netinu og var það upphafið að málinu.

Sigríður Björk staðfestir frávikningu mannsins í samtali við mbl.is og segir að unnið hafi verið að ákvörðun á undanförnum vikum. Maðurinn var sendur í leyfi frá störfum sumarið 2013 og hefur hann verið á hálfum launum þann tíma samkvæmt reglum um embættismenn.

mbl.is