Forgangsröðunin „óásættanleg“

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjarvera þingmanna í allsherjar- og menntamálanefnd í morgun var gagnrýnd í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Eins og fram kom á mbl.is afgreiddi nefndin í dag frumvarp um smásölu áfengis á fundi sínum í morgun og fer það nú til 2. umræðu á Alþingi. Þó að meiri­hluti hafi verið fyr­ir því að af­greiða frum­varpið úr nefnd­inni stóðu aðeins þrír nefnd­ar­menn af níu að meiri­hluta­áliti á því. 

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði athugasemd við það að málið hafi verið sett á dagskrá nefndarinnar og afgreitt þaðan út þegar ákveðnir aðalmenn nefndarinnar eru ekki til staðar. 

„Þannig var það í morgun. Ein af þingmönnunum sem hefur barist ötullega gegn þessu máli, háttvirtur þingmaður Elsa Lára Arnardóttir, er erlendis á vegum þingsins. Þá er þetta sett á dagskrá fundarins,“ sagði Guðbjartur.

„Það er líka athyglisvert að þetta er eina þingmannamálið sem hefur verið tekið á dagskrá nefndarinnar af sextán. Þetta er líka þannig vaxið að af níu aðalmönnum eru aðeins tveir aðalmenn á nefndaráliti,“ sagði Guðbjartur. Bætti hann að við að nú þurfi að hugsa upp á nýtt hvernig mál eru afgreidd í gegnum þingið. 

„Eigum við að taka upp þá reglu að öll mál komi hér í gegnum þingsal, sem er kannski full ástæða til, verði þau þá afgreidd með jöfnum hættu. Þessi forgangsröðun innan nefndar á vegum eins formanns er óásættanleg.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert