Hægar færslur í átt að Bárðarbungu

Gosið hefur staðið yfir í bráðum hálft ár. Verulega hefur …
Gosið hefur staðið yfir í bráðum hálft ár. Verulega hefur dregið úr hraunflæði í Holuhrauni og hægt á sighraða öskju Bárðarbungu. mbl.is/RAX

Mjög illa hefur sést til gosstöðvanna í Holuhrauni síðustu daga vegna veðurs. Gervitunglamyndir síðustu dægrin staðfesta þó að gos sé enn í gangi. Sjálfvirkur gasmælir á Blönduósi mældi 500 µgr/m³ (míkrógrömm á rúmmetra) af S02 (brennisteinsdíoxíð) í gær. 

Þetta kemur fram í yfirliti vísindamannaráðs almananvarna sem fundaði í morgun. 

Fram kemur, að áfram dragi úr jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu. Stærsti skjálftinn frá því á þriðjudag mældist 2,5 að stærð í gær fimmtudag kl. 01:59. Aðrir skjálftar voru minni en 2,0. Alls hafa mælst rúmlega 50 skjálftar í Bárðarbungu frá því á þriðjudag. Ekki hefur mælst skjálfti yfir 3,0 að stærð frá því 21. febrúar og ekki yfir 5,0 að stærð frá 8. janúar.

Askja Bárðarbungu hefur sigið um 5 cm á dag

Í kvikuganginum hafa mælst um 60 skjálftar frá því á þriðjudag. Þeir stærstu mældust 1,4 og 1,3 að stærð. Rétt er að taka fram að það er mjög háð veðri hve margir smáskjálftar mælast.

Sig öskju Bárðarbungu í síðustu viku var um 5 cm á dag að teknu tilliti til ísskriðs inn að miðju öskjunnar.

GPS-mælingar við Vatnajökul sýna áframhaldandi hægar færslur í átt að Bárðarbungu, í samræmi við að kvika flæði enn undan bungunni.

Við Tungnafellsjökul voru 5 skjálftar, sá stærsti 1,7 að stærð. Við Öskju og Herðubreið mældust um 25 skjálftar, sá stærsti mældist 2,3 að stærð í Öskju í gær kl. 05:42. Sjálfvirkur gasmælir á Blönduósi mældi 500 µgr/m³ af S02 í gær.

Gasmengun suðaustur af eldstöðinni

Í dag eru líkur á að vart verði við gasmengun frá eldgosinu í Holuhrauni á svæðunum suðaustur af eldstöðinni, en síðdegis berst mengunin einnig til vesturs og suðvesturs. Á morgun (laugardag) berst hugsanleg gasmengun til suðvesturs og suðurs. 

Gosið hefur staðið yfir í bráðum hálft ár. Verulega hefur dregið úr hraunflæði í Holuhrauni og hægt á sighraða öskju Bárðarbungu. Þrír möguleikar eru taldir líklegastir um framvinduna:

  • Gosið í Holuhrauni heldur áfram þar til öskjusig í Bárðarbungu hættir. Gosið gæti hætt á næstu vikum en ekki er hægt að útiloka að lítið gos geti haldið áfram í marga mánuði enn.
  • Gosvirkni færist til suðurs undir Dyngjujökul og veldur jökulhlaupum og gjóskufalli. Einnig er mögulegt að sprungur opnist annars staðar undir jöklinum. Ef slíkt gos yrði langvinnt gæti það breyst í hraungos. 
  • Gos í öskju Bárðarbungu. Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi. Öskufall gæti orðið nokkurt.

Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.

Litakóði fyrir flug er áfram appelsínugulur fyrir Bárðarbungu.

Næsti fundur Vísindamannaráðs verður þriðjudaginn 3. mars, 2015.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert