„Hugsaðu um eigin rass“

Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á Helgu Maríu frá HB Granda, Ragnheiður …
Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á Helgu Maríu frá HB Granda, Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins, Jakob Jóhannsson, formaður Krabbameinsfélagsins, Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Sigurgeir Freyr Pálmason, háseti á Helgu Maríu, og Loftur Gíslason, útgerðarstjóri ísfisksskipa HB Granda, við setninguna í dag.

Mottumars var settur um borð í frystitogaranum Helgu Maríu í Reykjavíkurhöfn í dag. Mottumars er árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameini hjá körlum, en í ár er sérstök áhersla lögð á umræðu um leit að ristilkrabba.

Slagorð átaksins í ár er „Hugsaðu um eigin rass“.

„Ristilkrabbamein er eitt algengasta krabbamein hjá körlum hér á landi en á hverju ári greinast rúmlega 70 karlar með þetta krabbamein,“ segir í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu. „Nýgengi hefur verið að aukast, einkum hjá körlum en ristilkrabbamein er eitt af fáum krabbameinum sem unnt er að greina á forstigi og byrjunarstigi. Með skipulagðri leit má því fækka sjúkdómstilfellum verulega og bjarga mannslífum. Mikilvægt er því að þekkja einkennin og þeir sem eru 50 ára og eldri ættu að ræða við sinn lækni um leit að ristilkrabbameini.“

Við setninguna í dag afhjúpaði Kristján Þór Júlíusson  heilbrigðisráðherra skegg á brú frystitogarans og þá var nokkrum herramönnum boðið upp á rakstur. Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem eru aðalstyrktaraðili Mottumars í ár og næstu tvö ár, hélt stutt erindi þar sem hann sagði m.a. að í sjávarútvegi störfuðu 9.000 manns með beinum hætti og samstarfinu væri m.a. ætla að koma fræðslu til þessa hóps betur til skila.

Árlega greinast um 750 íslenskir karlar með krabbamein.

Drúídar tóku forystuna í Mottumars

mbl.is