Sá kaldasti sjö ár

Veðrið var oft ansi leiðinlegt í febrúar.
Veðrið var oft ansi leiðinlegt í febrúar. mbl.is/Golli

Nýliðinn febrúar var sá kaldasti í Reykjavík frá því árið 2008. Úrkomusamt var um nær allt land. Umhleypingasamt var og veðurlag nokkuð stórgert og meðalvindhraði óvenjumikill. Oft urðu samgöngutruflanir vegna hríðarbylja, einkum á fjallvegum. Skaðar urðu vegna flóða í hlýindum fyrir miðjan mánuð.

Febrúar var kaldur miðað við það sem algengast hefur verið í febrúar á seinni árum og var hitinn undir meðallagi síðustu tíu ára alls staðar á landinu, og undir meðallagi áranna 1961 til 1990 um landið sunnan- og suðvestanvert og víða vestanlands. 

Mánaðarmeðalhitinn í Reykjavík mældist -0,1 stig, -0,5 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en -1,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var mánaðarmeðalhitinn -0,6 stig, 0,9 stigum yfir meðallagi 1961 til 1990, en -0,5 undir meðallagi síðustu tíu ára.

Hitinn fór hæst í 17,4 gráður en lægst í 25,8 stiga frost

Að tiltölu var hlýjast um landið austanvert en kaldast vestast á landinu og sums staðar við suðurströndina. Vik frá meðallagi síðustu tíu ára var minnst á Egilsstöðum, -0,0 stig, en mest á Hornbjargsvita, -2,3 stig.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 2,3 stig, en lægstur á Þverfjalli, -7,3 stig. Lægstur var meðalhitinn í byggð í Svartárkoti, -4,1 stig.

Landsmeðalhiti í byggð var undir frostmarki 17 daga mánaðarins.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 17,4°C á Dalatanga þann 8. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á sama stað daginn eftir, 16,8 °C. Lægsti hiti á landinu mældist -25,8 stig á Brúarjökli hinn 21. Lægsti hiti í byggð mældist -24,1 stig í Svartárkoti hinn 21. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist -20,2 stig á Grímsstöðum á Fjöllum hinn 22.

Úrkomusamt var um mestallt land

Úrkoma í Reykjavík mældist 93,2 mm og er það nærri 30 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 56,7 mm, eða 33 prósent umfram meðallag. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 130 mm sem er 88 prósent umfram meðallag og það mesta í febrúar síðan 2004. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 163,0 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 16 í Reykjavík og er það 3 fleiri en í meðalári. Á Akureyri voru slíkir dagar 13, 4 fleiri en að meðallagi.

Minnsta sól í Reykjavík síðan árið 1993

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 34,3 og er það 18 stundum undir meðallagi 1961 til 1990 og 32 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Sólskinsstundir hafa ekki mælst jafnfáar í febrúar í Reykjavík síðan 1993, en voru þó nærri því eins fáar 2012 og 2005. Sólskinsstundir á Akureyri mældust 28,7 og er það 8 stundum undir meðallagi áranna 1961 til 1990.

Snjór var var lengst af ekki mikill, einna mestur þó um miðbik Norðurlands og einnig á Vestfjörðum síðari hluta mánaðarins.

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 10. Að meðaltali 1971 til 2000 var alhvítt 13 daga í febrúar. Alhvítt var 16 daga á Akureyri, það er 5 dögum færra en í meðalfebrúar.

Samgöngur riðluðust nokkuð á vegum úti í hríðarveðrum í mánuðinum.

Ekki meira rok í febrúar síðan 1989

Meðalvindhraði var óvenjumikill, 1,5 m/s ofan við meðallag. Þetta er mesti meðalvindhraði í febrúar frá 1989 að telja, en var reyndar litlu minni í febrúar í fyrra.

Vindáttir voru óstöðugar, suðlægar og vestlægar áttir voru þó ríkjandi fyrstu 11 dagana. Stormasamt var með köflum, einna hvössust var sunnan- og vestanáttasyrpa dagana 6. til 10., landsynningsveður hinn 14., austan- og norðaustanillviðri 22. og 23. og austan- og suðaustanveður hinn 25. Síðasttöldu tvö veðrin voru þau útbreiddustu. Nokkrar samgöngutruflanir urðu fleiri daga, segir í frétt á vef Veðurstofu Íslands.

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Febrúar verður ekki minnst fyrir veðurblíðu.
Febrúar verður ekki minnst fyrir veðurblíðu. mbl.is/Rax
Það var oft leiðinlegt veður og færð á landinu
Það var oft leiðinlegt veður og færð á landinu mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is