Vilja ekki binda bólusetningar í lög

Bólusetning.
Bólusetning. Árni Sæberg

Ekki er farið fram á að foreldrar leikskólabarna framvísi bólusetningarvottorðum í íslenskum leikskólum, og ekki hefur verið skoðað sérstaklega að breyta því þrátt fyrir að farið sé fram á slíkt á leikskólum í sumum nágrannalöndunum. 

Þórólf­ur Guðna­son, yf­ir­lækn­ir sótt­varna hjá Land­læknisembætt­inu, segir ástandið hér á landi ekki svo slæmt að ástæða sé til þess að „fara út í svo harkalegar aðgerðir. Við viljum frekar reyna að upplýsa fólk og fá umræðu svo fólk mæti í bólusetningar í stað þess að skylda það til þess.“

Eins og mbl.is fjallaði um eru á bilinu 4 til 12 pró­sent barna á Íslandi ekki bólu­sett við helstu sjúk­dóm­um sem bólu­sett er við hér á landi. Meginástæða þess að foreldrar láta ekki bólusetja börn sín er sú að þeir eru hræddir við aukaverkanir af völdum bólusetninga. Að sögn Þórólfs er þó mun meiri hætta af völdum sjúkdómanna, sem bólusett er við, en bólusetningunum sjálfum. Embættið hvetji fólk því eindregið til að láta bólusetja börn sín, þar sem líkurnar á aukaverkunum séu afar fátíðar og ávinningur bólusetninga sé skýr og óumdeilanlegur.

„Teljum enga ástæðu til að skylda fólk í bólusetningar“

„Við höfum reynt að gefa út þá yfirlýsingu að við teljum enga ástæðu til að skylda fólk í bólusetningar, en það eru svosem aðrir sem ákvarða það í sjálfu sér,“ segir Þórólf­ur. „En við höfum sagt að ef það tekst ekki og það kemur í ljós að þátttakan fer að minnka eitthvað verulega, þá vissulega þurfum við að fara að ræða skyldu, en okkur finnst það ekki tímabært á þessu stigi.“

Hann segir ekki mikinn fjölda fólks hér á landi alfarið á móti bólusetningum, heldur sé vandamálið það að á vissum aldursskeiðum mæti fólk einfaldlega ekki með börnin sín í bólusetningar. „Það eru 97% foreldra sem mæta með börnin sín í fyrstu bólusetningu, en svo dettur þetta niður við 12 mánaða og fjögurra ára aldur einhverra hluta vegna. Það er líklega vandamál með innköllun en ekki það að fólk sé á móti bólusetningum, svo lagaskylda myndi ekki breyta því.“

Snýst ekki um að fólk vilji ekki mæta

Þórólfur segir því mikilvægt að horfa á önnur úrræði en lagasetningu, og frekar eigi að hvetja fólk til að mæta á þeim aldursskeiðum sem aðsókn er léleg á. „Það er einhver gleymska eða kerfisbundin vandamál í heilbrigðisþjónustunni sem klikka þar. Vissulega þurfa menn að gá að sér og vera vakandi, en þetta snýst ekki um það að fólk vilji ekki mæta - þetta snýst um eitthvað allt annað en það.“

Þá segir hann stöðuna ekki eins slæma og umræðan hafi gefið til kynna. „Þó að mislingabólusetning við 18 mánaða aldur sé kannski 90% þá er MMR-bólusetningin við 12 ára aldur hátt í 95%. Við erum því ekki í neinum ofboðslega slæmum málum eins og umræðan gæti gefið til kynna. Menn hafa farið svolítið fram úr sér á mörgum sviðum.“

Hann segir alltaf einhverja sem ekki vilja mæta, en sá hópur virðist ekki vera nema um 3% í hverjum árgangi. 

„Við teljum þetta ekki stórt vandamál“

Gögn um bólu­setn­ing­ar barna eru til í miðlæg­um gagna­grunni frá ár­inu 2005 og töl­ur um þátt­töku barna í bólu­setn­ing­um hafa verið nokkuð stöðugar síðan. Til að ná til þeirra barna sem ekki hafa verið bólu­sett send­ir sótt­varn­a­lækn­ir nafna­lista til heilsu­gæsl­unn­ar um þá ein­stak­linga sem ekki eru bólu­sett­ir sam­kvæmt upp­lýs­ing­um úr gagna­grunn­in­um. Þannig er hægt að ná til ein­stak­linga sem ekki eru bólu­sett­ir og bjóða þeim bólu­setn­ingu.

Þórólfur segir erfitt að segja til um hvort þátttaka hafi minnkað mikið þar sem það sé stutt síðan farið var að fylgjast heildrænt með komu fólks í bólusetningar. „Þessar þátttökutölur sveiflast alltaf á milli ára svo menn mega ekki alveg festa sig í eina tölu á einu ári og halda að allt sé að fara til fjandans, heldur þurfa menn að líta á þetta í stærra samhengi. Við teljum þetta ekki stórt vandamál en við komum til með að fylgja þessu áfram.“

Láti foreldra vita um óbólusetta skólafélaga

Oddviti Vinstri grænna í bæjarstjórn Kópavogs, Ólafur Þór Gunnarsson, lagði fram fyrirspurn á fundi bæjarstjórnar Kópavogs í síðustu viku þar sem hann spyr hvort það sé einhver stefna til um bólusetningar barna í leik- og grunnskólum Kópavogs.

Þá spyr hann enn fremur hvort foreldrar barna séu inntir eftir því hvort börn þeirra hafi verið bólusett við algengum sjúkdómum. Þess má geta að sjálfur er Ólafur Þór læknir. „Eru foreldrar upplýstir um ef börn sem ekki eru bólusett ganga í skóla með börnum þeirra?“ er ein þeirra spurninga sem Ólafur Þór lagði fram á fundinum.

Í greinargerð sem hann lætur fylgja með segir hann að fullt tilefni sé til þess að kanna þessi mál, sérstaklega í ljósi þess að á undanförnum vikum hafa borist fréttir af mislingafaröldrum austan hafs og vestan, og skipta tilfellin þúsundum. Það sé aðeins tímaspursmál hvenær þessir faraldrar berist til Íslands.

Þá er hafin undirskriftarsöfnun á netinu þar sem skorað er að stjórnvöld að gera bólusetningar að skyldu. Vill hópurinn að bólusetningar verði settar í lög en yfir 2.000 manns hafa ritað nafn sitt á listann.

Frétt mbl.is: Sumir alfarið á móti bólusetningum

Frétt mbl.is: Þátttaka hjá 12 mánaða og 4 ára undir væntingum

Þórólf­ur Guðna­son, yf­ir­lækn­ir sótt­varna hjá Land­læknisembætt­inu.
Þórólf­ur Guðna­son, yf­ir­lækn­ir sótt­varna hjá Land­læknisembætt­inu. Ljósmynd/Sigtryggur Ari
mbl.is

Bloggað um fréttina