Breyttar ferðavenjur auka álag

Flugbjörgunarsveitamenn að störfum.
Flugbjörgunarsveitamenn að störfum. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Árið 2014 sinntu björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar 2.500 atvikum þar sem ferðamenn áttu í hlut. Langstærsti hluti þessara atvika átti sér stað á þekktum ferðamannastöðum eða svæðum. Rúmlega 6.000 ferðamenn komu við sögu í þessum atvikum.

Þetta kemur fram í umsögn Slysavarnafélagsins Landsbjargar við frumvarp Alþingis til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Umsögnin var gerð opinber 25. febrúar. 

Að sögn Jóns Svanbergs Hjartarsonar, framkvæmdarstjóra Landsbjargar voru af þessum 2.500 atvikum um þúsund útköll sem boðuð voru með forgangi. Voru þá björgunarsveitir boðaðar ef t.d. hálendisvaktin væri ekki til staðar. Hann segir erfitt að segja til um hversu margir ferðamenn að jafnaði séu aðstoðaðir í hverju útkalli en telur líklegt að þeir séu langoftast tveir eða þrír saman. Jón Svanberg segir það mikilvægt að efla forvarnir til ferðamanna og upplýsingagjöf. 

„Það er okkar skoðun að það þurfi að efla forvarnir og upplýsingagjöf enn frekar. Að okkar mati er það einn af helstu þáttum þess að fækka óþarfa útköllum björgunarsveita tengdum ferðamönnum“ segir Jón Svanberg í samtali við mbl.is. Hann segir það ekki hlutverk einhvers eins hóps heldur allra og í þeim tilgangi var verkefnið Safetravel sett á laggirnar. „Að því koma auk félagsins ferðaþjónustan, hið opinbera og fleiri aðilar. Nýjasta afurð verkefnisins er skjáupplýsingakerfi ferðamanna, sjónvarpsskjáir sem sett hafa verið upp víða um landið og upplýsa um aðstæður. Þetta og aðrar forvarnir þarf að efla,“ segir Jón Svanberg.

„Við höfum talað fyrir því að allir þurfi að vera miklu duglegri að eiga samtal við ferðamanninn og upplýsa og aðvara,“ segir Jón Svanberg. „Þá meina ég bílaleigur, flugfélög, hótel og gistiheimili, bensínstöðvar og alla þá sem eiga í samskiptum við ferðamenn.“

Eins og flestir hafa tekið eftir hefur straumur erlendra ferðamanna til landsins aukist alveg gífurlega síðustu ár og er hann mikill allan ársins hring. Jón Svanberg segir að það hafi breytt miklu fyrir starfssemi félagsins, þó svo að útköll björgunarsveitanna einskorðist ekki við erlenda ferðamenn. 

„Við erum að sjá þessa miklu aukningu allan ársins hring. En þar hafa líka áhrif breyttar ferðavenjur Íslendinga á síðustu árum sem eru farnir að ferðast meira á veturna. Áhugi Íslendinga á að labba á fjöll er búinn að stóraukast og hefur það áhrif á starf björgunarsveitanna.“

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdarstjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdarstjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert