„Ekki hvarflað að mér að segja af mér“

Sigríður Björk Guðjónsdóttir segir að eftir á að hyggja hafi …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir segir að eftir á að hyggja hafi hún viljað gera hlutina með því verklagi sem Persónuvernd telur rétta. mbl.is/Kristinn

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (LRH), segir að undanfarnar vikur og mánuðir hafi vissulega reynt á hana og embættið, en nú sé þessu máli lokið og LRH fái vinnufrið á ný til þess að sinna mörgum og mikilvægum verkefnum á þessum stóra og þýðingarmikla vinnustað.

– Það er skammur tími frá því að þú tókst við starfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Varla áttirðu von á því þegar þú komst til borgarinnar frá Suðurnesjum að starfið yrði slík rússíbanareið sem mig grunar að það hafi verið fyrstu mánuðina. Hvernig hefur það verið fyrir þig að bíða eftir úrskurði Persónuverndar?

Innleiði ákveðnar breytingar

„Það eru sex mánuðir og þrír dagar frá því ég tók við embættinu. Þetta hefur auðvitað verið mjög annasamur tími. Ég er að kynnast nýju embætti og um leið byrja að innleiða ákveðnar breytingar hjá LRH.

Þegar ég byrjaði var fjárhagur embættisins ekki góður og LRH stefndi í töluverðan halla. Ég þurfti þegar í upphafi að hefja vinnu við að snúa því dæmi við og draga úr hallarekstrinum.

Við þurftum að koma nýja heimilisofbeldisverkefninu á laggirnar og til þess að geta gert það þurftum við að ráðast í mjög mikla fræðslu um alla þá þætti sem viðkoma þessum málaflokki.

Auk þess höfum við gert svolitlar breytingar á yfirstjórn Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, en nú er kynjahlutfallið jafnt, fimm karlar og fimm konur í yfirstjórninni.

Ennfremur höfum við verið að breyta áherslum töluvert, m.a. með því að taka í notkun hjá embættinu svokallaða straumlínustjórnun í yfirstjórn og auka þannig sýnilega stjórnun.

Á sama tíma og við erum að vinna öll þessi verkefni hefur umrætt mál verið til meðferðar hjá Persónuvernd og mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Rétt er að undirstrika að málið var á milli tveggja embætta; Lögreglustjórans á Suðurnesjum og innanríkisráðuneytisins, og snerist um gagnasendingar á milli þeirra. Einnig að þær gagnasendingar áttu sér stað eftir að lekamálið svokallaða var komið fram í fjölmiðlum. Þá legg ég áherslu á að það var ekki greinargerðin frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum sem lekið var í fjölmiðla. Efni greinargerðar lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum hefur aldrei ratað í fjölmiðla.“

Má draga lærdóm

Sigríður Björk bendir jafnframt á að úrskurður Persónuverndar hafi varðað form gagnasendingar og segist telja að lærdómurinn sem draga megi af umfjöllun nefndarinnar og úrskurði sé að stjórnsýslan þurfi að skoða almennt gagnasendingar og meðferð trúnaðarupplýsinga á milli stofnana.

„Það á ekki síst við skráningu mála,“ segir Sigríður Björk, „svo sem það hvernig gögn eru skráð í málaskrár og þess háttar. Hvað mína aðkomu varðar mun ég að sjálfsögðu taka fullt tillit til þessa úrskurðar og haga gagnasendingum í samræmi við hann.

Ég er vissulega fegin að þessu máli skuli vera lokið. Nú er komin niðurstaða og hægt að fara að vinna með hana. Stjórnsýslan þarf að skoða skráningu og hún þarf að skoða dulkóðun, þótt þegar sé búið að laga ýmislegt í þeim efnum sem Persónuvernd bendir á í úrskurði sínum.“

– Ólöf Nordal innanríkisráðherra segist á mbl.is í gær telja að þú hafir unnið eftir því verklagi sem almennt er viðurkennt, að þegar æðra stjórnvald (í þessu tilviki innanríkisráðuneytið – innskot blm.) kallar eftir upplýsingum þá séu þær veittar. Hún telji að þú hafir verið í góðri trú þegar þú afhentir umbeðnar upplýsingar til ráðuneytisins. Því hafi hún enga ástæðu til þess að efast um þín heilindi. Hvernig varð þér við að lesa þessi orð ráðherrans?

Þakklát fyrir traust ráðherra

„Ég er mjög ánægð með þessi orð ráðherrans og viðbrögð. Ég er einnig þakklát fyrir það traust sem ráðherrann sýnir mér.“

– Það hafa einhverjir haft á orði á því að þú yrðir að segja af þér embætti. Hefur einhvern tíma hvarflað að þér á þessu tímabili að segja af þér vegna þessa máls?

„Ýmislegt hefur verið rætt og ritað um þetta mál að undanförnu, bæði réttmætt og annað beinlínis rangt. Ég hef lært mikið af þessu ferli en það hefur ekki hvarflað að mér að segja af mér embætti.

Þetta tiltekna mál var skráð hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Gögnin voru skráð í vinnugögn og það er allt saman rekjanlegt í tölvupóstum. Það var því ekki eins og einhver leynd hefði hvílt yfir þessari sendingu.

Persónuvernd segir að við hefðum átt að skrá málið í málaskrárkerfið, og að sjálfsögðu er full ástæða til þess að taka mark á slíkum ábendingum og breyta skráningaraðferðum.

Í raun og veru snýst úrskurður Persónuverndar um það hvernig yfirstofnanir og undirstofnanir eiga samskipti sín á milli. Ég tel raunar að sumt sé enn óútskýrt í þeim efnum, t.d. það að það á eftir að skýra frekar stöðu aðstoðarmanna ráðherra, eins og Umboðsmaður Alþingis hefur bent á.“

Tók þetta mál nærri mér

– Finnst þér þegar þú horfir til baka að allt þetta fjaðrafok hafi verið stormur í vatnsglasi?

„Ég verð að segja að sú mikla umfjöllun sem átt hefur sér stað í fjölmiðlum í kringum þetta mál hefur komið mér svolítið á óvart, ekki síst meðan það var til meðferðar hjá Persónuvernd og því lítið um það að segja í þeirri biðstöðu. Auðvitað tók ég þetta mál nærri mér og alla þá umfjöllun sem í kringum það varð og eftir á að hyggja hefði ég viljað gera hlutina með því verklagi sem Persónuvernd telur rétta.

Þeirri spurningu hefur verið varpað fram hvort ég hefði ekki átt að gera lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kunnugt um samskipti mín við Gísla Frey, aðstoðarmann ráðherra, þegar hún vann að rannsókn sinni á lekamálinu. Því er til að svara að samskipti mín við aðstoðarmanninn fóru fram eftir að hann hafði lekið upplýsingum til fjölmiðla. Jafnframt að öll samskipti aðstoðarmanna og tölvupóstsendingar voru skoðuð af lögreglunni og allar upplýsingar um mín samskipti lágu þar fyrir.

Ég hef barist fyrir auknu innra eftirliti gagnvart lögreglunni vegna þess að við höfum miklar heimildir og við þurfum að njóta trausts.

Ég legg líka áherslu á að við megum ekki vera hrædd við eftirlitsstofnanir, sem veita nauðsynlegt aðhald. Persónuvernd á að skoða kerfið og í þessu máli kemur hún fram með ábendingar sem verður hlustað á og farið eftir.“

Lokuðu hringnum í Reykjavík

Hver er hún, þessi Sigríður Björk Guðjónsdóttir, sem tók við starfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í fyrra?

„Ég er einkabarn foreldra minna, sem eignuðust mig afar ung að árum, eða 16 ára gömul. Ég held því fram að ég sé einkabarn vegna þess að það hafi tekist svo vel í fyrstu tilraun!“ segir Sigríður Björk og hlær við. „Þeirra afstaða var auðvitað: aldrei, aldrei aftur! Þetta er svona fjölskylduhúmor hjá okkur.“

Sigríður Björk segir að til að byrja með hafi hún og foreldrar hennar búið í Reykjavík, en síðan flutt í Hafnarfjörð þegar hún var tíu ára. Hún hafi löngum dvalið hjá dásamlegum móðurforeldrum og alltaf átt þar athvarf, til dæmis meðan foreldrar hennar voru í námi í Bandaríkjunum. Móðurafi hennar er látinn, en móðuramman, sú kjarnorkukona, sé að nálgast nírætt.

„Ég kynntist manninum mínum, Skúla Sigurði Ólafssyni, rétt um tvítugt og við eignuðumst okkar fyrsta barn 22 ára gömul. Við eigum þrjú börn og það eru 20 ár á milli þess elsta og þess yngsta.

Við Skúli Sigurður kynntumst í lögfræðinámi, en svo flutti hann sig yfir í guðfræðina. Ég sagði honum að ef hann færi austar en Selfoss eða vestar en Akranes, þá færi hann einn! Svo endaði þetta á því að við erum búin að vera 20 ár á flakki og fluttum bara til Reykjavíkur í fyrra. Við byrjuðum í Danmörku, fórum svo á Ísafjörð, svo til Svíþjóðar, aftur á Ísafjörð og svo í Reykjanesbæ. Við erum því að loka hringnum hér í Reykjavík, tveimur áratugum eftir að flakkið hófst.“

Aðhyllist þjónandi forystu

– Þegar þú varst lögreglustjórinn á Suðurnesjum hófuð þið hjá embættinu átak gegn heimilisofbeldi. Nú er samskonar verkefni komið á koppinn hjáLRH. Hvernig gengur?

„Ég á ekkert ein heiðurinn af verkefninu, hvorki á Suðurnesjum né hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var og er samstarfsverkefni.

Það var ekki síst Ingólfur Gíslason hjá Körlum til ábyrgðar sem opnaði augu okkar með því að spyrja um sakfellingarhlutfall í sambandi við heimilisofbeldi. Við skoðun vorum við mjög ósátt við það hversu fá mál komust áfram í kerfinu. Oftast eru mál felld niður vegna þess að þeim er ekki fylgt eftir.

Lögfræðieining, almenn deild og rannsóknardeild lögðu öll sitt af mörkum í þessu verkefni. Og nú erum við komin af stað með svona verkefni í samstarfi við Reykjavíkurborg. Við leitum leiða til þess að styrkja þolandann og um leið að leita aðstoðar fyrir gerandann.

Ég hef kannski svolítið öðruvísi stjórnunarstíl en margir aðrir. Ég aðhyllist það sem kallað er þjónandi forysta. Hún gengur út á það að fólkið okkar, samstarfsmennirnir, sé þessi auður sem við eigum að passa, þannig að við náum bættum verkferlum, bættu vinnulagi og bættum árangri eins nálægt fólkinu sem er að vinna verkin og hægt er. Það á ekki að fara eftir því hvar þú ert í hinum svokallaða metorðastiga – það eiga allar raddir að fá að heyrast sem koma að verkinu.

LRH er með mjög mörg starfsstig og ábyrgðarkeðjan er löng. Það sem ég vil gera er að fletja kerfið út innan frá, ef svo má að orði komast, þannig að allir komi sinni rödd að. Vitanlega þarf það alltaf að vera skýrt út á við hver ber ábyrgðina. Þegar ég var á Suðurnesjum var tiltölulega auðvelt að hrinda slíkum strúktúrbreytingum í framkvæmd hjá embætti þar sem störfuðu 110 manns. Hér er það aðeins flóknara, enda embættið með 360 starfsmenn og því taka breytingar lengri tíma.“

Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, játaði …
Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, játaði að lokum að hafa lekið minnisblaðinu í fjölmiðla. Kristinn Ingvarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »