Í þjóðlaginu er sameiginlegt erfðaefni okkar allra

Egill Ólafsson og Jónas Þórir á æfingu.
Egill Ólafsson og Jónas Þórir á æfingu. mbl.is/Kristinn

Þegar fólk býr til tónlist fer það aldrei langt frá sjálfu sér og þeim hughrifum sem það verður fyrir í æsku – í það minnsta á það við um mig,“ segir Egill Ólafsson en hann mun koma fram á þjóðlagahátíð á Kexhosteli um helgina og með honum verður Jónas Þórir sem spilar á Hammond-orgel. „Á laugardaginn ætla ég að setjast niður með gítar, ásamt samstarfsmanni til margra ára, Jónasi Þóri, og við ætlum að spila lög frá ólíkum tímum, en spila þau í anda þess þjóðlagastíls sem var ríkjandi í kringum 1960 eða þegar ég byrjaði að hlusta á tónlist og verða fyrir áhrifum. Þegar ég lít til baka átta ég mig á því að ég hef í raun aldrei sagt skilið við þessi áhrif, þegar þjóðlaga-bylgjan mikla gekk yfir okkar heimshluta: Harry Belafonte, Pete Seeger, Bob Dylan, Joni Mitchell og Bítlarnir. Allt þetta ágæta tónlistarfólk var undir mjög sterkum áhrifum frá gamla arfinum, þjóðlaginu.

Við verðum með samsafn ólíkra laga í nýjum búningi, negrasálma, gömul popplög, þjóðlög, svolítinn Beethoven, Bítlana, Egil Ólafs og fleira,“ segir Egill.

„Við ætlum að leyfa okkur að velta vöngum yfir hlutverki tónlistar, þess vegna þjóðlagsins í gegnum árþúsundin: Þjóðlag er lag sem hefur sannanlega ferðast frá einu samfélagi til annars, og hvert samfélag hefur gert það sama lag að sínu – m.ö.o. gert nýtt lag sem byggir á stundum lauslega á því gamla. Ég ólst upp við að hlusta á amerísku þjóðlagahefðina eftir miðja síðustu öld, kalipsóið, skiffle, Gershwin, blúsinn bæði þann breska og ameríska, Bítlana og varð fyrir sterkum áhrifum, þetta voru þjóðlögin sem bárust til okkar og við byggðum á þeim og bjuggum til nýja músík, sem við kölluðum okkar. Það er því músík sem lýtur sömu lögmálum og þjóðlög. Þannig er þjóðlagið alltaf í ferðum og alltaf að ganga í endurnýjun lífdaga. Það er endalaust verið að semja nýjar sögur, lög, ljóð sem byggja á flökkuarfi kynslóðanna.“

Egill segir að á tímum Pýþagórasar, á sjöttu öld fyrir Krist, hafi módal-tóntegundirnar komið til, tóntegundir sem við notum í íslensku þjóðlögunum.

„Módal-tóntegundirnar varðveittust í grísk-kaþólska söngnum - en margir lagboðar þar eru upphaflega þjóðlög sem kirkjan tók upp og notaði. Kaþólskan varð útbreidd og því varð þjóðlagið fyrir áframhaldandi áhrifum af þessum gömlu svokölluðu kirkjutóntegundum og Lúther hélt viðteknum hætti og tók upp gamla drykkjusöngva og gerði að sálmum. Þá voru aðrir tímar og farið að glitta í dúr- og moll-kerfið, nýjar tóntegundir og tempraða stillingin var ekki langt undan.

Tónskáldin gerðu þetta líka, til dæmis Beethoven, tónlistin hans er uppfull af stefjaefni sem á rætur í þjóðlögum sem hann vinnur svo útfrá.“

Þjóðlagið þjappar okkur saman

Egill segir að í ævafornu þjóðlagi geti falist margslunginn gamall arfur/tónamál frá ólíkum heimshlutum og ef þau eru skoðuð, rannsökuð þá kemur ósjaldan ýmislegt spennandi í ljós. Því miður hefur lítið verið gert af því að rannsaka íslensku þjóðlögin og mögulegan uppruna þeirra. „Í þessum arfi er falinn margslunginn mikilvægur aldaspegill, í rauninni tímahylki, í því liggur mikilvægi þjóðlagsins. Þegar við miðlum þjóðlagi með söng erum við í hlutverki miðilsins sem tengir við liðinn tíma, færir okkur nýja sýn á núið og bregður jafnvel ljósi á óorðinn tíma. Þjóðlagið þjappar okkur saman, af því að í þjóðlaginu er sameiginlegt erfðaefni okkar allra sem höfum byggt þennan heim frá því að sönglíf kviknaði – þess vegna kemur það okkur við á öllum tímum.“

Trommurnar voru einhverskonar gsm-símar þess tíma

Egill segist alltaf hafa verið hrifinn af því gamla hlutverki tónlistarmannsins að miðla, að vera tengiliður við það sem er handan lífsins, handan raunheims.

„Fyrir tuttugu og tvö þúsund árum var indíáni með trommu í hlutverki þess sem sagði fyrir um veður, uppskeru og jafnvel hamingju fólks og tengdi lifendur við þá sem voru farnir. Trommurnar voru einhverskonar gsm-símar þess tíma, talsamband við fjarskann og þess vegna guðina og það þurfti músíkmann til að taka við skilaboðum og flytja þau. Tónlistarfólk í dag er að hluta til enn í þessu þarfa hlutverki, að tengja okkur við stóru víddirnar, stóru tilfinningarnar sem bærast innra með okkur öllum, tengja okkur við sjálf okkur og svo auðvitað alheimsarfinn, sem við eins og tónlistin berum í okkur.

Sjálfur hef ég mest gaman af músík sem er hægferðug og ferðast inn; færir mig nær sjálfum mér og hvað það er sem bærist í bakhöfðinu. Það er hið raunverulega hlutverk tónlistar.“

Lay Low, Ylja, Kólga, Funi, Moð, Pétur Ben

Þjóðlagatónlistarhátíðin Reykjavík Folk Festival verður haldin á Kex Hostel við Skúlagötu dagana 5.- 7. mars. Dagskrá hátíðarinnar er ætlað að blanda saman þjóðlagatónlistarmönnum og -hljómsveitum á ólíkum aldri og frá ólíkum áttum innan þjóðlagatónlistarheimsins.

Fram koma: Teitur Magnússon, Ylja, Kólga, Funi, Moð, Lindy Vopnfjord, Klassart, Lay Low, JP Hoe, Björn Thoroddsen, Pétur Ben og Egill Ólafsson.

Tveir listamannanna koma frá Kanada og eiga ættir að rekja til Íslands, Lindy Vopnfjörð og JP Hoe.

Nánar: www.folkfestival.is og á facebook.com/reykjavikfolkfestival

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert