Loftslag eitt en veður annað

Óvenjukaldir vetrarmánuðir eitt ár þýða ekki að hnattræn hlýnun eigi …
Óvenjukaldir vetrarmánuðir eitt ár þýða ekki að hnattræn hlýnun eigi sér ekki stað. Sveiflur í veðurfari munu halda áfram þrátt fyrir almenna þróun í átt til hlýnunar. mbl.is/Styrmir Kári

Veðurfarsveiflur eru meiri á Ísland en víðast hvar annars staðar á jörðinni. Slíkar sveiflur munu halda áfram jafnvel þó að meðalhitastig jarðar rísi vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum. Þetta segir Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Bjarni Diðrik hélt erindi um loftslagsbreytingar á opnum fundi Landsvirkjunar um ábyrgð fyrirtækja í loftslagsmálum í gær. Hann segir að þrátt fyrir að umræða í fjölmiðlum um loftslagsbreytingar sé oft ruglingsleg þá sé þetta ekki ný ógn sem vísindamenn hafi fundið upp á. Gróðurhúsaáhrifin séu vel þekkt og án þeirra væri jörðin ekki byggileg.

„Við erum að tala um breytingar á náttúrulegum ferlum sem við þekkjum,“ segir hann.

Þó að gróðurhúsaáhrifin tryggi það að hitastig jarðar hafi orðið hentugt fyrir líf þá eru menn nú að auka á þessi áhrif með losun sinni á gróðurhúsalofttegundum. Með því valda þeir því að hitastigið fer hækkandi og spá menn því að það hafi alvarlegar afleiðingar fyrir líf manna, dýra og gróðurs á næstu áratugum og öldum.

Ber mest á furðulegustu staðhæfingunum

Hitastigsmælingar frá seinni hluta 19. aldar sýna að meðalhitastig jarðar hafi hækkað um 0,8°C. Bjarni Diðrik segir að enginn deili um að hitastigið hafi hækkað. Í fjölmiðlum beri hins vegar mest á furðulegustu staðhæfingunum um orsakir þessa. Aðra sögu er hins vegar að segja af vísindasamfélaginu. Innan þess er talið fullvíst að losun manna á gróðurhúsalofttegundum sé það sem valdi hlýnun jarðar. Innan þess er spurningin hins vegar hvers vegna svo virðist sem að hlýnun hafi orðið minni en menn gerðu ráð fyrir þegar aðeins er litið til styrks koltvísýrings í lofthjúpnum.

„Eins og skilningurinn var fyrir tiltölulega stuttu síðan þá átti í rauninni að hlýna meira á jörðinni vegna hækkandi styrks gróðurhúsalofttegunda en mælingar bentu til. Á síðustu fimm til tíu árum hafa orðið gríðarlega framfarir í skilningi vísindamanna á öðrum þáttum sem draga úr hlýnun andrúmslofts,“ segir Bjarni Diðrik.

Á meðal þessara þátta eru kólnunaráhrif sóts og ryks frá eldgosum, mengun og uppblæstri. Í raun hefði átt að hlýna um 1,5°C ef gróðurhúsalofttegundirnar væru eini þátturinn sem réði meðalhita jarðar.

Nýlegar rannsóknir benda hins vegar til þess að sumir ferlar sem hafa „falið“ hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda, eins og náttúrulegar sveiflur í úthöfunum, gætu sveiflast í hina áttina og lagst ofan á hnattræna hlýnun.

Þurfa að horfa á 50-100 ára tímabil til að sjá þróunina

Stundum hafa sérstaklega miklar vetrarhörkur eða snjókoma á óvenjulegum stöðum verið notuð sem rök fyrir því að hnattræn hlýnun eigi sér í raun ekki stað. Bjarni Diðrik bendir hins vegar á að loftslag sé eitt og veður annað. Jafnvel þó að jörðin sé að meðaltali að verða hlýrri þá eigi hitastigssveiflur sér enn stað á mismunandi svæðum hennar.

„Það getur verið hlýtt á ákveðnum bletti á jörðinni af mismunandi ástæðum. Það mun alltaf vera þannig. Ísland er á þeim stað á jarðarkúlunni þar sem slíkar veðursveiflur eru hvað mestar. Hér sjáum við nákvæmlega sömu hlýnun og hefur orðið á jörðinni en til að sjá hana þurfum við að horfa allavegana 50 ár og helst 100 ár aftur í tímann því sveiflurnar hér eru meiri en á flestum öðrum stöðum. Veðrið breytist ekki eins þó að loftslags breytist,“ segir hann.

Fyrri frétt mbl.is: Minni losun er eina lausnin

Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, á opnum fundi …
Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, á opnum fundi Landsvirkjunar um loftslagsmál í gær. Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert