Holtavörðuheiðin orðin fær

Fært er orðið um Holtavörðuheiði en enn er unnið að því að ryðja Bröttubrekku. Á annað hundrað ferðalangar gistu í Reykjaskóla í Hrútafirði og félagsheimilinu á Laugarbakka í nótt vegna ófærðar á Norðvesturlandi. Spáin er ágæt í dag en mjög slæm á morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er spáð rólegu veðri í dag. Búist er við vonskuveðri síðdegis á morgun og eru horfur á að ferðalög yfir heiðar og fjallvegi verði erfið eða ómöguleg (Hellisheiði milli kl. 14 og 19 svo dæmi sé tekið).

Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og á flestum öðrum leiðum á Reykjanesi en hálkublettir á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu. Hálka og éljagangur er á Hellisheiði, í Þrengslum og á Sandskeiði. Það er hálka eða snjóþekja á flestum öðrum leiðum á Suðurlandi en þó er þæfingsfærð efst á Landvegi. Ófært er á Krísuvíkurvegi og á Kjósarskarði.

Það er hálka eða snjóþekja á Vesturlandi og víða éljagangur. Þungfært er á Útnesvegi en ófært frá Arnarstapa. Lokað er á Bröttubrekku en unnið er að opnun.

Á Vestfjörðum er snjóþekja eða hálka á vegum. Þæfingsfærð er á Ennishálsi og í Bitrufirði á Ströndum. Ófært er um flesta fjallvegi en unnið er að mokstri.

Það er hálka, snjóþekja eða hálkublettir á Norðurlandi og sumstaðar skafrenningur. Þæfingsfærð er á Siglufjarðarvegi og hálka og skafrenningur á Hófaskarði.

Á Austurlandi eru hálkublettir. Hálka eða snjóþekja er með suðausturströndinni frá Djúpavogi og áfram suður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert