Landsbjörg mátti ekki selja tertuna

Slysið varð á nýársnótt árið 2013.
Slysið varð á nýársnótt árið 2013. mbl.is/Ómar Óskarsson

Slysavarnafélagið Landsbjörg þarf að greiða fyrir 2/3 hluta líkamstjóns sem maður varð fyrir á nýársnótt 2013 vegna skottertunnar „Köku ársins 2012“ sem ekki mátti selja til almennings. Maðurinn missti sjón á hægra auga eftir að hann fékk skoteld úr tertunni í það.

Maðurinn höfðaði mál til að fá viðurkennda skaðabótaskyldu Landsbjargar á slysinu sem átti sér stað í Garðabæ á nýársnótt árið 2013. Rök hans voru meðal annars þau að leiðbeiningum og öryggisviðvörunum á tertunni hafi verið ábótavant, tertan hafi ekki virkað með eðlilegum hætti og hún hafi ekki verið eins örugg og vænta hefði mátt.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að sala á tertunni til almennings hafi ekki verið heimil samkvæmt reglugerð um skotelda þar sem hún hafi haft fleiri en tvo kveikjuþræði. Því sé viðurkennt að Landsbjörg berið skaðabótaskyldu vegna 2/3 hluta líkamstjóns mannsins.

Manninum var hins vegar gert að bera þriðjung tjónsins sjálfur þar sem sannað hafi verið að hann hafi ekki snúið sér frá skoteldinum strax og tilefni var til eftir tendrun hans. Fyrir utan hluta líkamstjóns mannsins þarf Landsbjörg að greiða 2,6 milljónir í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert