Skar upp heila apa með Parkinson

Heilafrumurnar sem búnar voru til úr stofnfrumum mynda dópamín. Þær …
Heilafrumurnar sem búnar voru til úr stofnfrumum mynda dópamín. Þær voru svo græddar í heila þriggja macaca-apa. Penelope J. Hallett

Íslenski heila- og taugaskurðlæknirinn Arnar Ástráðsson sá um að græða frumur í heila apa fyrir rannsókn á vegum Harvard-háskóla sem snýst um að að þróa meðferð við Parkinson-sjúkdóminum. Einn apanna náði fyrri hreyfigetu eftir ígræðsluna.

Stofnfrumustofnun Harvard-háskóla stóð fyrir rannsókninni en Arnar stjórnaði aðgerðum á þremur macaca-öpum þar sem heilafrumur sem unnar voru úr stofnfrumum voru græddar í heila þeirra. Öpunum var gefið efnið MPTP sem kallar fram einkenni Parkinson-sjúkdómsins; skjálfta, stífleika og hægar hreyfingar.

„Þetta er í fyrsta skipti sem sýnt er fram á að önnur dýr, eins og api, nái bata eftir ígræðslu á þessari tegund á heilafrumum,“ segir Arnar.  Rannsóknin birtist í vísindaritinu Cell Stem Cell í febrúar.

Húðfrumur voru teknar úr öpunum sjálfum, þeim umbreytt í stofnfrumur sem voru svo ræktaðar í heilafrumur. Arnar segir þetta nýlega aðferð en með henni sé hægt að framleiða stofnfrumur úr fullorðnum frumum með því að setja ákveðna vaxtaþætti og gen saman við þær.

Gæti verið reynt á mönnum eftir um þrjú ár

Ekki hefur áður verið reynt að græða þessa tegund frumna í heila sjúklinga en hins vegar hefur það verið reynt með fósturfrumur.

„Þetta hefur þá kosti að það er hægt að framleiða jafnvel ótakmarkað magn af frumum. Þær eru teknar úr sjúklingnum sjálfum þannig að það er ekki hætta á höfnun og það þarf ekki að nota ónæmisbælandi meðferð. Þetta hefur þá kosti umfram frumur úr fóstrum að fósturvefur er af skornum skammti og það eru ýmsar siðferðislegar spurningar í því sambandi,“ segir Arnar.

Fyrri tveir aparnir náðu ekki bata en þær frumur sem græddar voru í þriðja og síðasta apann fengu öðruvísi meðhöndlun. Hann náði fyrri hreyfigetu eftir þá meðferð, að sögn Arnars. Til stendur að reyna ígræðsluna í fjórum öpum til viðbótar til að sjá hvort að það skili viðlíka árangri.

„Ef það gengur jafnvel með apana sem koma á eftir þá erum við að tala um að þessi meðferð verði reynd á sjúklingum eftir um þrjú ár,“ segir Arnar.

Arnar Ástráðsson, heila- og taugaskurðlæknir.
Arnar Ástráðsson, heila- og taugaskurðlæknir. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert