Löngu tímabært að taka af skarið

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég hef verið talsmaður þess að íslenska ríkisstjórnin tæki einhliða af skarið í þessa veru í ljósi framvindu mála allt frá árinu 2011 þegar ESB neitaði að afhenda rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál,“ segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á vefsíðu sinni í tilefni af ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að draga umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið til baka.

Björn segir að síðasta ríkisstjórn vinstriflokkanna hafi árangurslaust reynt að fá Evrópusambandið til þess að afhenda rýniskýrsluna. Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, hafi síðan kynnt þá niðurstöðu í janúar 2013 að gera ætti hlé á viðræðunum við sambandið. „Þær hafa síðan legið í láginni, viðræðunefndir hafa verið afmunstraðar og ný framkvæmdastjórn ESB tilkynnti árið 2014 að ekki yrði unnið að frekari stækkun ESB fyrr en í fyrsta lagi eftir 2019.“

Björn segir að vilji stjórnarandstaðan ná sér niðri á ríkisstjórninni vegna þessa máls sé eðlilegt að það verði gert með tillögu um vantraust í stað þess að reyna að taka óskyld þingmál í gíslingu eins og hótað hafi verið. Það væri rétta leiðin í þeim efnum. Kjósendur felldu síðan sinn dóm í kosningum. Björn segir að lokum að gleðileg þáttaskil hafi orðið í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert