Óeðlilegt samráðsleysi ráðherra

Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ
Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ mbl.is/Ómar Óskarsson

Utanríkisráðherra hafði formlega heimild til þess að koma fram fyrir Íslands hönd gagnvart Evrópusambandinu um aðildarumsóknina, að mati Bjargar Thorarensen, prófessors í stjórnskipunarrétti. Fullkomlega óeðlilegt var hins vegar að utanríkismálanefnd hafi ekki verið tilkynnt um það.

Þingsályktunin frá 2009 hafi falið í sér pólitísk fyrirmæli til þáverandi ríkisstjórnar. Núverandi ríkisstjórn sé ekki lagalega skuldbundin af henni.

Almennt segir hún að framkvæmdavaldið fari með forræði á utanríkismálum og utanríkisráðherra fari með fyrirsvar Íslands gagnvart öðrum ríkjum og alþjóðlegum stofnunum. Þetta sé grundvallarregla í stjórnskipuninni. Einu reglur stjórnarskrárinnar um afskipti af utanríkismálum séu að Alþingi þurfi að veita samþykki sitt fyrir því að utanríkisráðherra fullgildi tiltekna alþjóðasamninga.

„Í þessu máli er ekki um að ræða neina ákvörðun um aðild að þjóðréttarskuldbindingum heldur fyrirsvar gagnvart alþjóðastofnun um stöðu samningaviðræðna Íslands við Evrópusambandið. Utanríkisráðherra er fyllilega bær til að koma fram fyrir hönd íslenska ríkisins gagnvart alþjóðastofnun eins og ESB. Það hlýtur að líta á það sem svo að hann hafi þarna umboð. Það er líka ljóst að ríkisstjórnin situr í umboði þingsins. Að því leytinu til hefur utanríkisráðherra formlega heimild,“ segir Björg.

Hefði verið fyllilega rétt að gera grein fyrir ákvörðuninni

Það hvort að pólitískt eðlilegt hafi verið að tilkynna Evrópusambandinu þessa ákvörðun með þessum hætti sé hins vegar annað mál, sérstaklega hvað það varðar að leita ekki samráðs við utanríkismálanefnd Alþingis. Samkvæmt þingsköpum sé ríkisstjórninni skylt að hafa samráð við hana í meiriháttar utanríkismálum. Í huga Bjargar falla þessi samskipti utanríkisráðherra við ESB undir þá skilgreiningu.

„Mér finnst fullkomlega óeðlilegt í ljósi þess hversu veigamikið þetta mál er og meiriháttar utanríkismál að það hafi ekki verið tilkynnt utanríkismálanefnd sérstaklega um þessa tilteknu ákvörðun eða bréfaskipti ráðherra við Evrópusambandið,“ segir hún.

Markmiðið með samráðsskyldu í þingskaparlögum sé ekki aðeins að stjórnarflokkarnir og meirihlutinn sé upplýstur um það sem gerist í mikilvægum utanríkismálum heldur þingheimur allur, þar á meðal fulltrúar minnihlutans í utanríkismálanefnd.

„Ég hefði talið fyllilega rétt við þessar aðstæður að gera grein fyrir þessu,“ segir Björg.

NATO-aðildin ekki sambærilegt mál

Birgitta Jónsdóttir, formaður Pírata, sagði ákvörðun utanríkisráðherra setja allar þingsályktanir um alþjóðasamninga í uppnáma, þar á meðal um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Björg segir hins vegar að grundvallarmunur sé þarna á.

Aðild að NATO snúist um að Alþingi veiti ríkisstjórninni heimild til að fullgilda milliríkjasamning. Það sé gert með þingsályktun. Til þess að segja samningnum upp þyrfti einnig samþykki Alþingis.

„Allt sem tengist aðild Íslands að þjóðréttarsamningum sem þetta Evrópusambandsmál snýst ekki um, það er fest í 21. grein stjórnarskrárinnar. Þess vegna er mikill munur á því hvort fjallað sé um aðild eða uppsögn þjóðréttarsamnings eða hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið,“ segir Björg.

mbl.is