Talsmaður ESB úti á túni

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.

„Það er alveg greinilegt að þessi ágæti talsmaður er engan veginn með það á hreinu sem stendur í bréfinu enda setur hún þarna fram fullyðingar um atriði sem hvergi koma þar fram,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is spurður um ummæli Maju Kocijanic, talsmanns stækkunarstjóra Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í dag.

Kocijanic sagði á blaðamannafundinum að ríkisstjórn Íslands hefði ekki formlega dregið umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið til baka og að stjórnin hefði aðeins frestað viðræðum í tvö ár. Ef ákveðið yrði við lok þess tímabils að draga umsóknina til baka yrði að koma ósk um það til ráðherraráðs sambandsins.

Gunnar Bragi segir fyrir það fyrsta hvergi minnst á tveggja ára tímabil í bréfi ríkisstjórnarinnar til lettneskra stjórnvalda sem fari með forsætið innan Evrópusambandsins og þá fari bréfið til Letta áfram til ráðherraráðs sambandsins. Þegar hafi verið haft samband við Kocijanic og henni bent á að ekki hafi verið farið rétt með á blaðamannafundinum.

Ennfremur hafi verið haft samband við utanríkisráðherra Lettlands, Edgars Rinkevics, vegna málsins sem fari með forsætið innan Evrópusambandsins. Það sem fram kæmi í bréfinu færi ekki á milli mála. Þar væri óskað eftir því að Ísland yrði ekki skilgreint sem umsóknarríki enda ljóst að umsóknin hefði runnið sitt skeið á enda og ríkisstjórnin alfarið andvíg því að ganga í Evrópusambandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert