Einstæð mynd af almyrkva

Almyrkvi á sól. Ragnar Axelsson ljósmyndari Morgunblaðsins tók þessa einstæðu …
Almyrkvi á sól. Ragnar Axelsson ljósmyndari Morgunblaðsins tók þessa einstæðu mynd 1050 km vestsuðvestur af Reykjavík, fyrir austan Grænland. Myndin er tekin úr 40.000 fetum mbl.is/Rax

„Almyrkvinn varaði bara í fimm sekúndur. Það dimmdi og það kom svartur skuggi á skýin fyrir neðan okkur. Það var mjög óraunverulegt að sjá þetta,“ sagði Ragnar Axelsson ljósmyndari. Hann náði meðfylgjandi mynd af sólmyrkva sem varð laugardaginn 4. október 1986. Sólmyrkvinn var á mörkum þess að vera almyrkvi og hringmyrkvi.

„Dr. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur var búinn að reikna nákvæmlega út hvar og í hvaða hæð þetta myndi sjást best,“ sagði Ragnar. Bandarískir vísindamenn komu hingað og leigðu Cessna Citation-einkaþotu Þotuflugs. Ragnar og Páll Reynisson sjónvarpstökumaður fengu að fara með. Flogið var í 40.000 feta hæð 1.050 km suðvestur frá Íslandi þar til komið var á braut sólmyrkvans fyrir suðaustan Grænland.

„Vísindamaður lét alla fá dökka ljóssíu og menn settu þetta í gluggana og á linsurnar. Mér leist ekki á þetta og reif síuna frá 300 mm linsunni. Ég var sá eini sem náði þessu augnabliki en aðrir um borð náðu ekki svona ljósmynd því ljóssían lokaði linsunum. Þeir sáu bara svart þegar þetta stóð sem hæst og fengu svo mynd hjá mér,“ sagði Ragnar. Myndin vakti mikla athygli og töldu fróðir menn að ekki hefði áður náðst ljósmynd sem sýndi fjöll tunglsins og krónu sólar jafn vel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert