Mikilvægt að fá lyktir í lekamál

Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn

„Ég vonaðist til þess að ráðherrann fyrrverandi kæmi fyrir nefndina og gerði grein fyrir þeim álitamálum sem voru uppi, eða gerði það í rituðu máli, svo það má segja að þetta séu ákveðin vonbrigði,“ segir Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, en Hanna Birna Kristjánsdóttir, fv. innanríkisráðherra, þáði ekki boð nefndarinnar um að koma fyrir hennar fund í dag.

Nefndin hafði boðið Hönnu Birnu á sinn fund vegna lekamálsins en í skriflegu svari sem hún sendi Ögmundi í gær segist hún ekki óska eftir að koma að frekari upplýsingum um málið en hún hefur þegar gert. Þar sem hún komi ekki aft­ur til þingstarfa eft­ir leyfi fyrr en eft­ir miðjan apríl seg­ist Hanna Birna vísa til þeirra upp­lýs­inga og gagna sem þegar liggja fyr­ir í mál­inu.

Þrátt fyrir að Hanna Birna hafi afþakkað boðið tók nefndin málið engu að síður fyrir á fundinum. „Það er vissulega hennar réttur að hafna þessu boði, en hún vísar í þessi mál í bréfinu sem hún sendi og það veður að segjast eins og er að hún gerir ekki mjög rækilega grein fyrir þeim álitamálum sem uppi voru, en það er einnig hennar ákvörðun,“ segir Ögmundur.

Greinargerð öðru hvoru megin við páska

Ögmundur segir nefndina hafa boðað Hönnu Birnu á fund fyrst og fremst vegna samskipta við þingið. „Eins og ég benti á í bréfi sem ég skrifaði fyrir hönd nefndarinnar höfðu verið ýmsar mótsagnir í málflutningi á þinginu og þar kom fram ýmislegt af hennar hálfu sem ekki stóðst. Þetta vildum við fá upplýst,“ segir hann.

Þá segist hann líta á bréf Hönnu Birnu sem endanlegt svar um að hún hyggist ekki koma fyrir nefndina, og því þurfi að ljúka málinu með öðrum hætti. „Það verður sest yfir þetta og ég mun gera tillögu að drögum að greinargerð og svo er það nefndarinnar að taka afstöðu til hennar. Það sem mér finnst mestu skipta er að fá lyktir í þetta mál.“

Ögmundur segir það nú hlutverk nefndarinnar að setja sig inn í málið og taka ákvörðun um það að hverju hún stendur gagnvart Alþingi. „Ég lít svo á að þetta verði að fá endanlegar lyktir í þetta mál eins fljótt og mögulegt er svo það verður öðru hvoru megin við páskana,“ segir hann að lokum.

Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is