Alfreð segist vera saklaus

Alfreð Örn Clausen.
Alfreð Örn Clausen. mynd/Saksóknarinn í San Bernandino-sýslu

Alfreð Örn Clausen, sem hefur verið sakaður um þjófnað og peningaþvætti í Bandaríkjunum, lýsir sig saklausan í málinu. Hann lítur svo á að hann sé hugsanlega vitni í málinu en ekki sakborningur.

„Hinar meintu sakir sem bornar eru á Alfreð um þjófnað og peningaþvætti eiga því ekki við rök að styðjast,“ segir í yfirlýsingu sem Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Alfreðs hefur sent til fjölmiðla. 

Hún er svohljóðandi:

„Umbjóðandi minn, Alfreð Örn Clausen, sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum í tengslum við meintan þjófnað og peningaþvætti í Bandaríkjunum, lýsir sig saklausan í málinu. Lítur hann svo á að hann sé hugsanlega vitni en ekki sakborningur. 

Undirritaður lögmaður hefur sent bréf til Micheal A. Ramos, District Attorney í County of San Bernardino í Kaliforníu, þar sem óskað hefur verið eftir upplýsingum um málið og upplýst að Alfreð sé reiðubúinn að aðstoða embættið með hverjum þeim hætti sem þurfa þykir til þess að upplýsa málið. Með sama hætti hefur undirritaður lögmaður upplýst ríkislögreglustjóra að Alfreð sé tilbúinn til þess að gefa skýrslu hjá embættinu ef þurfa þykir. 

Alfreð hefur þannig lýst sig viljugan til að ræða við íslensk lögregluyfirvöld sem og bandarísk hér á landi en hyggst ekki fara til Bandaríkjanna að sinni. Fari hann til Bandaríkjanna mun hann þurfa að sitja inni í fangelsi þangað til málið er tekið fyrir en það getur tekið 2-3 ár, þ.e. geti hann ekki reitt af hendi tæpar 18 milljónir dollara í tryggingu. Slík málsmeðferð er með öllu ótæk og í andstöðu við grundvallarreglur réttarríkisins. 

Komið hefur fram í fjölmiðlum að Alfreð sé í felum hérlendis. Það er rangt. Alfreð er íslenskur ríkisborgari sem fluttist aftur til Íslands fyrir u.þ.b. fimm mánuðum síðan en ákæra var ekki gefin út málinu fyrr en í síðustu viku. Í því sambandi er rétt að halda til haga að Alfreð hefur aldrei verið boðaður til skýrslutöku hjá lögreglu í Bandaríkjunum vegna málsins. Það er því ekki rétt að Alfreð sé í felum eða á flótta. 

Alfreð rak ásamt viðskiptafélaga sínum fyrirtæki sem vann sem verktaki fyrir lögmannsstofu sem aðstoðaði fólk við að endurfjármagna lán sín. Engar peningagreiðslur fóru beint í gegnum fyrirtæki Alfreðs og því er rangt að hann hafi haft milljarða af fólki. Lögmannsstofan og fyrirtæki Alfreðs voru því tvö aðskilin fyrirtæki og það var ekkert samningssamband milli fyrirtækis Alfreðs og viðskiptavina lögmannsstofunnar. Fyrirtæki Alfreðs tók þannig aldrei við neinum fjármunum frá viðskiptavinum lögmannsstofunnar. Hinar meintu sakir sem bornar eru á Alfreð um þjófnað og peningaþvætti eiga því ekki við rök að styðjast.“

Hafa ekki farið fram á framsal

Við gerðum ekkert rangt

Leitað vegna stórfelldra svika

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert