Ellefu ár í almyrkva á Íslandi

Almyrkvinn gæti litið einhvern veginn svona út. Ragnar Axelsson ljósmyndari …
Almyrkvinn gæti litið einhvern veginn svona út. Ragnar Axelsson ljósmyndari Morgunblaðsins tók þessa einstæðu mynd á flugi fyrir austan Grænland, í 40 þúsund feta hæð. mbl.is/Rax

Hafi landsmenn ekki fengið fylli sína af sólmyrkvum geta þeir hughreyst sig með þeirri staðreynd að 11 ár eru þangað til almyrkvi verður hér á landi. Verður hann þann 12. ág­úst 2026 og nær slóð hans í gegn­um Reykja­vík.

Mun leið myrkvans liggja yfir norðurheimskautið, Grænland, þá Ísland, yfir Atlantshafið og loks að Norður-Spáni. Myrkvinn mun ná hámarki við vesturströnd Íslands og þar mun myrkrið vara lengst. Verður það fyrsti almyrkvinn sem sést frá Íslandi síðan 30. júní 1954. Fólk mun þó þurfa að bíða öllu lengra eftir þeim næsta þar sem hann verður árið 2196.

Ferillinn yfir Ísland vestanvert

Samkvæmt almanaki Háskóla Íslands, mun ferill skuggans, sem verður tæplega 300 km á breidd, liggja yfir Ísland vestanvert, eins og áður sagði. Í Reykjavík mun almyrkvinn standa yfir í 1 mínútu og 10 sekúndur, en á Ísafirði í 1 mínútu og 36 sekúndur. Á Norðfirði verður deildarmyrkvi, og mun tungl hylja 95% af þvermáli sólar þaðan séð. Segir á vef almanaksins að almyrkvi á sólu sé einhver tilkomumesta sjón sem fyrir augu geti borið í náttúrunnar ríki.

Sjá má slóð myrkvans hér fyrir neðan og ljóst er að Íslendingar munu ekki þurfa að vera árrisulir þennan dag árið 2026 til að njóta myrkvans. Verður hann við vesturströndina laust fyrir klukkan sex um kvöld.

Almyrkvinn verður sýnilegur í spænsku borgunum Valencia, Zaragoza, Palma og Bilbao, en bæði Madríd og Barcelona verða utan slóðar almyrkvans og munu því aðeins njóta deildarmyrkva. Þá mun meira en 90% deildarmyrkvi verða á Írlandi, Bretlandi, Portúgal, Frakklandi, Ítalíu og á Balkanskaganum. Bestu aðstæðurnar til að sjá myrkvann verða þó við vesturströnd Íslands.

Hvað er sól­myrkvi?

Sól­myrkvi verður þegar tunglið fer á milli sól­ar og jarðar þannig að það varp­ar skugga á jörðina og sól­in myrkv­ast að hluta eða í heild frá jörðu séð. Frá jörðu séð eru tunglið og sól­in álíka stór, þótt sól­in sé um 400 sinn­um stærri en tunglið. Ástæðan er sú að sól­in er um 400 sinn­um lengra frá jörðu en tunglið.

Hylji tunglið alla sól­ina er talað um al­myrkva, en deild­ar­myrkva þegar skífa sól­ar­inn­ar hylst að hluta. Við hring­myrkva fer tunglið fyr­ir sól­ina, en er það langt frá jörðu að það nær ekki að myrkva alla skífu sól­ar. Sól­myrkv­ar verða ein­ung­is þegar jörðin, tunglið og sól­in eru í beinni línu. Þeir geta því aðeins orðið þegar tungl er nýtt.

Næsti deildarmyrkvi hér á landi verður árið 2017 en næsti tunglmyrkvi verður þann 28. september næstkomandi, þegar jörðin mun að fullu skýla tunglinu fyrir ljósi sólarinnar.

Skýringarmynd af sólmyrkva
Skýringarmynd af sólmyrkva Mynd/Stjörnufræðivefurinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert