Taka völdin af klámiðnaðinum með #freethenipple

Þessar konur tóku þátt í #freethenipple í Háskóla Íslands í …
Þessar konur tóku þátt í #freethenipple í Háskóla Íslands í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sá samtakamáttur sem varð í gær var alveg ótrúlegur. Valdeflingin fyrir þær sem taka þátt og þær sem horfðu á og konur almennt er ógleymanleg og fer í sögubækurnar,“ segir Fríða Rós Valdimarsdóttir, varaformaður Kvenréttindafélags Íslands aðspurð um átakið #freethenipple sem var mjög áberandi hér á landi í gær.

Eins og fram kom á mbl.is í gær tóku fjölmargar íslenskar konur þátt með því að bera brjóst sín, en enn fleiri sýndu þeim og átakinu stuðning á samfélagsmiðlinum Twitter. Hafa margir kallað gærdaginn upphaf byltingar.

„Þegar að ég fylgdist með þessari atburðarrás í gær og fyrradag hugsaði ég til kvennanna sem brenndu brjóstahaldarana á sjöunda áratugnum. Ég hugsaði með mér hvað það eru margir eldri feminístar,  mæður og feður og fólk í samfélaginu sem nagaði neglurnar yfir því áhyggjum af því hvað þær væri nú búnar að gera sér. Það getur vel verið að einhverjar þeirra hafi farið illa út úr því að hafa gert þetta,“ segir Fríða Rós. „En fyrir þær konur sem stóðu í eldlínunni var þetta sigur og bylting til lengri tíma litið og stórt skref í baráttunni fyrir kynfrelsi kvenna. Ég set #freethenipple algjörlega í samhengi við brjóstahaldarabyltinguna.“

Búa stöðugt við ógn dreifingar

Hún segir að stúlkur í dag búi við annan veruleika en kynslóðirnar á undan. „Í gær var mikið í umræðunni hvað verði nú um þessar stúlkur, hvort myndirnar muni hafa neikvæð áhrif á atvinnuleit þeirra í framtíðinni. Bentu sumir á að þessar myndir gætu alltaf komið upp og verið tengdar við klám sem er auðvitað nýr veruleiki,“ segir Fríða Rós. „En þetta sem gerðist í gær hóf ekki þá ógn sem þessar stúlkur lifa við á hverjum degi, þær búa stöðugt við þá ógn að slíkar myndir af þeim geti alltaf farið í dreifingu og jafnvel þegar gert það í einhverjum tilfellum.“

Að sögn Fríðu Rósar hafa fulltrúar Kvenréttindafélagsins verið að fara í framhaldsskóla landsins og haldið fyrirlestra um hrelliklám. Hrelliklám er þegar að nektarmyndum er dreift án leyfis þeim sem er á myndinni, yfirleitt til þess að hrella eða stríða viðkomandi.

„Við höfum verið að spyrja hversu margir í hverjum hóp hafa ekki annað hvort fengið sendar nektarmyndir eða sent nektarmyndir, með eða án samþykkis. Það eru yfirleitt svona einn til tveir sem rétta upp hönd,“ segir Fríða Rós. „Mín kynslóð hefur til dæmis lítið þurft að hugsa út í þetta.“

Hún segir að þær stelpur sem tóku þátt í #freethenipple hafi í gær tekið völdin af klámiðnaðinum og hrist upp í almennum viðhorfum. „Það er ekki bara virðingavert, heldur er þetta einhverskonar samfélagsbylting,“ segir Fríða Rós. „Fyrir klámheiminum eru þessar stúlkur söluvara sem klámiðnaðurinn dýrkar og nærist á. En þarna ná þær að taka völdin og birta myndirnar sjálfar og hrista upp í þessu.“

„Þetta fer í dreifingu sama hvað“

Sagt var frá því að fjölmörgum myndum sem birtust á Twitter í gær af geirvörtum og brjóstum hafi verið deilt á deiliskráarsíðunnar deildu.net. Fríða Rós segir að dreifing sem þessi sé ekki það sem skapar ógnina sem margar íslenskar stúlkur þurfa að horfast í augu við á degi hverjum. „Þetta fer í dreifingu sama hvað. Myndirnar af þeim sem þær tóku sjálfar og deildu á netinu er ekki það sem skapar ógnina. Eins og núna eru fjölmargar stúlkur búnar að koma fram og segjast finna fyrir samstöðu því þeirra myndir hafa farið í dreifingu án þeirra samþykkis og eru þær því þolendur hrellikláms. Ég sá í gær að sumar þeirra fundu fyrir samstöðu í þessari byltingu. Já #freethenipple myndirnar fara í dreifingu, en stúlkurnar eiga hvort eð er alltaf á hættu að slíkt gerist.“

Aðspurð hvort að bylting sem þessi gæti gert gerendum hrellikláms erfiðara fyrir að hrella fórnarlömb sín segir Fríða Rós að tíminn þurfi að leiða það í ljós. „Margir hafa sagt að með því að setja brjóstin inn á Twitter verði það bara normið að sjá brjóst. En ég held nú ekki að allir í heiminum hafi verið á Twitter í gær. Tíminn þarf að leiða í ljós hvaða áhrif þetta hefur. En eitt er víst, þetta hefur áhrif á þær sem tóku þátt, og þær sem fylgdust með,“ segir Fríða Rós. „En auðvitað þurfum við lagarbreytingu sem tekur á því að einhverjir setji þessar myndir í klámfengið samhengi. Þetta sýnir okkur hvað það er svakalega nauðsynlegt að setja sem fyrst á lög sem banna hrelliklám.“

Fríða Rós Valdimarsdóttir, varaformaður Kvenréttindafélags Íslands.
Fríða Rós Valdimarsdóttir, varaformaður Kvenréttindafélags Íslands.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert