Vilhelmína Lever kaus fyrst árið 1863

Hátíðarfundur kvenna í borgarstjórn hófst kl. 14 í dag. Fundurinn er hluti af hátíðahöldum Reykjavíkurborgar vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Þessi dagsetning varð fyrir valinu því þann 31. mars árið 1863 kaus fyrsta konan til sveitarstjórnar á Íslandi. Hún hét Vilhelmína Lever, og kaus hún til bæjarstjórnar á Akureyri.

Hátíðarfundinn í dag sitja 15 efstu konur í borgarstjórn, auk borgarritara sem er staðgengill borgarstjóra við þetta tilefni.

Á dagskrá fundarins eru þrjár tillögur:

  1. Tillaga um að haldin verði afrekasýning kvenna á Íslandi í Ráðhúsi Reykjavíkur
  2. Tillaga um að fela forsætisnefnd að hefja undirbúning að stofnun ofbeldisvarnarnefndar á vegum mannréttindaráðs
  3. Tillaga um að halda málþing um þátttöku og áhrif kvenna í stjórnmálum á afmælisdegi Ingibjargar H. Bjarnason

Reykjavíkurborg mun standa fyrir 100 viðburðum, smáum og stórum, í tilefni þess að öld er liðin frá því að konur, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Með hátíðahöldunum verður minnst þess árangurs sem náðst hefur í kvenréttindabaráttunni og hvatt til jafnréttis kynja á öllum sviðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert