Fylgi Framsóknarflokks minnkar

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Af vef Framsóknarflokksins

„Við náðum náttúrulega alveg gríðarlega góðum árangri í síðustu kosningum. En við höfum svo sem heldur aldrei komið vel út í skoðanakönnunum,“ segir Þórunn Egilsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is og vísar til niðurstöðu nýjasta þjóðarpúls Gallups um fylgi stjórnmálaflokka.

Þar mælist Framsóknarflokkurinn, sem í síðustu alþingiskosningum fékk 24,4% atkvæða, með 10,8% fylgi og er það örlítið minna fylgi en í síðasta mánuði, eða 0,2%. Hinn ríkisstjórnarflokkurinn, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, mælist með 25% fylgi en fékk í síðustu kosningum 26,7% atkvæða. 

Spurð hvort hún telji flokk sinn eiga inni frekara fylgi kveður Þórunn já við og bendir auk þess á að Framsóknarflokkurinn hafi yfirleitt fengið aukinn stuðning í kosningum. „Þannig virðist það hafa verið og ég reikna með því að svo sé enn.“

Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup eru Píratar, sem í síðustu alþingiskosningum fengu 5,1% atkvæða, næststærsti stjórnmálaflokkur landsins. Mælast þeir nú með um 22% fylgi.

Spurð hvort sterk staða Pírata nú komi henni á óvart svarar Þórunn: „Jú kannski og kannski ekki. Það er ákveðin þreyta í gangi varðandi gömlu flokkana og okkur hefur ekki tekist að breyta umræðunni eins og við vildum. [...] Fólk er tilbúið til þess að skoða það sem er nýtt og virðist hafa öðruvísi áherslur. Það er kannski ekkert skrítið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert