Sparaði þjóðarbúinu marga milljarða

Frumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi til breytinga á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi þess efnis efnis að gildistöku ákvæða laganna, sem skylda söluaðila til sölu endurnýjanlegs eldsneytis, verði frestað til ársins 2020. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að það muni spara þjóðarbúinu milljarða króna í erlendum gjaldeyri við olíukaup.

Lögin tóku gildi árið 2013. Bent er á að á fyrsta framkvæmdaári þeirra, það er síðasta ári, hafi íslensk olíufélög flutt inn þúsundir tonna af lífolíu til þess að uppfylla ákvæði laganna um 3,5% orkuhlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa. „Lífolíunni var blandað í hefðbundna dísilolíu. Innkaupakostnaður þessarar lífolíu er um 550 bandaríkjadölum hærri á hvert tonn en á hefðbundinni dísilolíu. Eldsneytisreikningur Íslendinga varð því nokkur hundruð milljónum króna hærri en ef notast hefði verið við hefðbundna dísilolíu.“

Lögin eru byggð á tilskipun frá Evrópusambandinu sem tekin var í íslenskan rétt á grundvelli EES-samningsins. Vísað er til þess í greinargerðinni að markmið sambandsins með tilskipuninni sé að árið 2020 verði 10% af orku sem notuð er í samgöngum af endurnýjanlegum uppruna. Um 75% af almennri orkunotkun Íslendinga sé hins vegar þegar af endurnýjanlegum uppruna og þar með langt umfram 20% heildarmarkmið Evrópusambandsins fyrir árið 2020. „Sá hluti tilskipunarinnar er varðar samgöngur setur einungis markmið fyrir árið 2020. Ekkert rekur því á eftir Íslendingum í þessum efnum fyrir þann tíma.“

Flutningsmenn frumvarpsins eru Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Frosti Sigurjónsson og Willum Þór Þórsson, þingmenn Framsóknarflokksins.

Frunvarpið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert