Allir fangaklefar fullir

Lögreglan stóð í ströngu í nótt.
Lögreglan stóð í ströngu í nótt. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

 Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að nóttin hafi verið óvenjulega annasöm. Allir fangaklefar eru fullir. Veitingahús lokuðu kl. 3 en þá færðist gleðskapurinn að miklu leyti í heimahús. Samkvæmt upplýsingum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins kom á óvart hversu margir sjúkraflutningar voru í nótt. Þeir voru fleiri en búast má við aðfararnótt páskadags.

Lögreglan á Ísafirði segir að nóttin hafi gengið þokkalega. Einn gistir fangageymslur. Margt var um manninn í bænum í nótt í kjölfar tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður en langflestir voru til friðs. 

Sömu sögu er að segja frá Akureyri. Margt fólk var í bænum í nótt en allt fór rólega og vel fram, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar. Ölvun var ekki áberandi mikil. Í sama streng taka lögreglumenn á Suðurnesjum og á Selfossi. Þeir segja nóttina hafa verið rólega.

Aðra sögu er að segja úr höfuðborginni.

„Í stórum dráttum má segja frá því að allir fangaklefar eru setnir vegna ýmissa mála,“ segir varðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina. Hann segir fólk hafa verið fært í fangaklefa vegna innbrota, ölvunaraksturs þar sem tjón varð auk fíkniefnamála og almennrar ölvunar.

„Mikill erill var hjá lögreglumönnum og eru þeir enn að taka við verkefnum þrátt fyrir að veitingahús hafi lokað klukkan 3 í nótt og virtist gleðin færast að einhverju leyti í heimahús,“ segir varðstjórinn. 

Nokkur minniháttar fíkniefnamál komu upp í nótt sem afgreidd voru á vettvangi, nokkuð var um ölvunar- og fíkniefnaakstur auk þess sem lögreglan þurfti að hafa afskipti af ölvuðum gestum borgarinnar og sinna hávaðaútköllum í heimahúsum.

 „Það má með sanni segja að næturnar hafa verið viðráðanlegri en sú sem nú líður undir lok og svo virðist sem margir hafi séð sérstaka ástæðu til að fagna í tilefni upprisu frelsarans,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert