Segir Óla vera lögfræðing, ekki eiginmann sinn

Ólafur Ólafsson,
Ólafur Ólafsson, mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ingibjörg Kristjánsdóttir, eiginkona Ólafs Ólafssonar, segir í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag að Hæstiréttur hafi farið mannavillt í rökstuðningi sínum í Al Thani-málinu. Þar hafi Ólafi verið ruglað saman við lögfræðing með sama fornafn. Óli sé því lögfræðingur en ekki eiginmaður hennar.

Ólafur Ólafsson var í Hæstarétti dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrr á árinu vegna aðildar að málinu.

„Í upphafsforsendum dómsins vísar Hæstiréttur til símtals í gögnum málsins, þar sem fram kemur að ítrekað hafi verið rætt við „Óla“ um nákvæma útfærslu viðskiptanna. Hæstiréttur fer mannavillt í rökstuðningi sínum og ályktar að hér sé átt við eiginmann minn, Ólaf Ólafsson, en hið rétta er að um er að ræða lögfræðing með sama fornafni sem er sérfræðingur í lögum um kauphallarviðskipti,“ fullyrðir Ingibjörg í grein sinni.

Þórólfur Jónsson, lögmaður Ólafs Ólafssonar, segist ekki sjá annað en að um misskilning sé að ræða hjá Hæstarétti og að næstu skref séu til skoðunar. 

„Eitt af því sem menn eiga rétt á að óska eftir, ef misskilnings gætir um atvik máls, er að það sé endurupptekið,“ segir Þórólfur í viðtali við Fréttablaðið í dag.

mbl.is