Ekki lengur hægt að svelta á föstudaginn langa

Fjölmargir lögðu leið sína í miðbæ Reykjavíkur um páskahelgina. Voru …
Fjölmargir lögðu leið sína í miðbæ Reykjavíkur um páskahelgina. Voru þar ferðamenn áberandi. mbl.is/Árni Sæberg

Síðustu ár hafa æ fleiri verslanir og veitingastaðir haft opið á helgidögum þjóðkirkjunnar. Um nýliðna páskahelgi mátti sjá fjölmarga veitingastaði, bari og verslanir opnar í miðbæ Reykjavíkur, og straum ferðamanna. Vígslubiskup Skálholtsumdæmis telur nauðsynlegt að breyta lögum um helgidagafrið og segir að það þurfi að bregðast við samfélaginu eins og það er í dag.

Í lögum um helgidagafrið má sjá að helgidögum þjóðkirkjunnar er skipt í þrjá liði. Í fyrsta lið eru sunnudagar, annar dagur jóla, nýársdagur, skírdagur, annar dagur páska, uppstigningardagur og annar dagur hvítasunnu. Þá daga er öll starfsemi heimil.

Í öðrum lið eru föstudaginn langi, páskadagur og hvítasunnudagur. Þá er flest opinber starfsemi óheimil fyrir utan nokkar undantekningar. Um þá daga segir í lögunum að skemmtanir, svo sem dansleikir eða einkasamkvæmi á opinberum veitingastöðum eða á öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að séu óheimilar. Hið sama gildir um opinberar sýningar og skemmtanir þar sem happdrætti, bingó eða önnur svipuð spil fara fram. Jafnframt eru markaðir og verslunarstarfsemi óheimil þessa daga, sem og önnur viðskiptastarfsemi.

Er þriðji liðurinn aðfangadagur jóla frá klukkan 18 og jóladagur til klukkan 6 að morgni næsta dags.

Þjóðkirkjan stundar ekkert eftirlit

Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup við Skálholtskirkju, telur nauðsynlegt að breyta lögum um helgidagafrið, en hann var í nefnd sem vann að endurskoðun laganna árið 1999. „Við vorum þrjú í nefnd, Ég, Ragna Árnadóttir, sem þá var fulltrúi þáverandi kirkjumálaráðuneytis, og Sigurður Jónsson, sem var þá formaður Samtaka verslunarinnar,“ segir Kristján.

„Okkur fannst skrýtið að hægt var að kaupa hvað sem er væri maður fyrir utan Reykjavík. Þá var gerð smá breyting á helgidagalöggjöfinni til þess að rýmka þær reglur sem voru fyrir, til þess að maður þyrfti ekki að keyra austur fyrir fjall vantaði mann mjólk á föstudaginn langa. Miðað var við ákveðna stærð á verslunarhúsnæði sem mætti vera opin.“ Kristján segir að sú breyting virki alls ekki í dag.

„Þjóðkirkjan er ekkert að stunda eftirlit með helgidagalöggjöfinni. Við erum ekki að amast við því að fólk fái að kaupa í matinn í Reykjavík þó það sé föstudagurinn langi, þegar það er hægt á ýmsum öðrum ferðamannastöðum,“ segir Kristján og bætir við að lögin séu hugsuð til þess að tryggja að þau sem vilja stunda helgihald á sunnudögum og helgidögum hafi frið til þess. Gildir það jafnt um allt kristið fólk en ekki bara þjóðkirkjufólk. „Lögin eiga að veita þeim sem vilja fara í messu frið til þess að gera það og þeim sem starfa í verslunum og á veitingastöðum sinn lögmæta tíma til hvíldar,“ segir Kristján. 

Þarf að taka mið af samfélaginu

Í lögum um helgidagafrið segir:

 „Um helgidagafrið er mælt í lögum þessum í því skyni að vernda helgihald og til að tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar innan þeirra marka er greinir í lögunum.“

Kristján segir augljóst að ekki sé farið eftir þessum lögum í dag en að stóra spurningin snúist ekki um það.

„Hvernig ætlum við að lifa í þessum heimi? Það streyma yfir okkur ferðamenn sem þurfa að fá eitthvað að borða og það er ekki lengur þannig að þú getir bara svelt á föstudaginn langa,“ segir Kristján. „Ég held að það detti engum það í hug í Þjóðkirkjunni að þeir sem eru alls ekki í neinni kirkju og hafa engin afskipti af trúarbrögðum eigi að sitja heima og gera ekki neitt. Hver hefur áhuga á að neyða það fólk til þess að sitja með hendur í skauti á meðan við hin förum í messu? Það er algerlega út úr takti,“ segir Kristján.

Hann segir að löggjöfin eigi að tryggja að þeir sem selja fólki vörur eða mat fái löglegan hvíldartíma yfir hátíðarnar. „Þetta snýst ekki um það að banna mönnum að fara út að dansa ef menn vilja það. Það þarf að breyta þessum lögum og taka mið af því sem er í þessu samfélagi. Við sem viljum fara í kirkju og halda okkar helgidaga, við þurfum frið til þess. En við eigum ekki að neyða aðra til að gera eins og við.“

Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti
Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert