8600 störf á næstu þremur árum

Vinnumálastofnun spáir því í nýrri skýrslu að störfum muni fjölga …
Vinnumálastofnun spáir því í nýrri skýrslu að störfum muni fjölga um 4,8% frá 2015-2017. Stærsti hluti nýrra starfa verður í byggingariðnaðinum og ferðaþjónustu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Störfum mun fjölga um 8600 á næstu þremur árum, en það er rúmlega 4,8% aukning frá því sem nú er. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðu og horfur á íslenskum vinnumarkaði fyrir árin 2015-2017. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi muni minnka á tímabilinu og fara niður í 3,1% árið 2017, eða að atvinnulausum fækki úr 9300 niður í 6000.

Í skýrslunni kemur einnig fram að konur séu í dag orðnar fleiri á vinnumarkaði en þær voru fyrir hrun, en í fyrra var fjöldi kvenna á vinnumarkaði rúmlega 85 þúsund meðan fjöldi þeirra var um 82 þúsund fyrir hrun. Karl Sigurðsson, einn höfundur skýrslunnar, segir að þetta skýrist að miklu af aukningu í ferðaþjónustu sem og að verslun og þjónusta sé farin á meira skrið en síðustu ár.

Karl kynnti skýrsluna á fundi Vinnumálastofnunar í dag og sagði hann að jákvæðar vísbendingar hefðu komið fram í könnun sem gerð var meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins. Helstu greinar sem búist er við að standi undir fjölgun starfa eru byggingariðnaður, ferðaþjónusta, upplýsingatækni og fjarskipti, meðan séð er fyrir fækkun starfa í fjármálaþjónustu.

Háskólamenntaðir eru í dag orðnir stærsti hópur vinnumarkaðarins með yfir 75 þúsund manns, en Karl segir að þetta sé sá hópur sem hægast gangi á þegar kemur að því að fækka á atvinnuleysisskrá. Segir hann að þá sé einnig fyrirséð að fleiri muni útskrifast úr háskólanámi á komandi árum en atvinnulífið kalli eftir. Karl tekur þó fram að ekki sé hægt að yfirfæra þetta á allt háskólanám og nefndi í því sambandi að mikið hefði verið rætt um skort á útskrifuðu fólki með tæknimenntun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert