Norðurlönd verjast Rússum í sameiningu

Frá heræfingu hér á landi árið 2007.
Frá heræfingu hér á landi árið 2007. Ljósmynd/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Gunnar Bragi Sveinsson tilkynnti í dag, ásamt hinum varnarmálaráðherrum Norðurlandanna, um aukið varnarsamstarf í nánustu framtíð vegna þeirrar vaxandi ógnar sem stafar af Rússum.

Tilkynningin birtist sem yfirlýsing í norska fjölmiðlinum Aftenposten en þar segir meðal annars að öryggi á norðurslóðum hafi minnkað umtalsvert síðasta árið og að Norðurlöndin þurfi að búa sig undir að hætta geti skapast.

„Við þurfum að horfast í augu við að hlutirnir ganga ekki lengur fyrir sig eins og vant er, heldur er komin upp ný staða sem við þurfum að takast á við,“ skrifa ráðherrarnir.

„Við þurfum að takast á við framferði Rússlands, ekki orðræðuna frá Kreml. Rússland hefur lagt í miklar fjárfestingar til að efla hernaðargetu landsins og hefur sýnt að þar séu menn reiðubúnir að beita hervaldi til að ná pólitískum markmiðum sínum, þó svo að það  brjóti gegn grunnreglum þjóðarréttar.

Ráðherrarnir vísa sérstaklega til framgöngu Rússlands gagnvart Úkraínu og segja þeir ólögmæta innlimun Krímskagans skýrt brot á þjóðarrétti.

Aukin samvinna þjóðanna mun einna helst felast í áherslu á að deila upplýsingum um það sem fram fer í lofthelgi þjóðanna, auk þess sem áframhaldandi samstarf verður þeirra á milli í tengslum við netvarnir. Þá verður aukin vigt lögð á sameiginlegar heræfingar og samvinna á sviði iðnaðarframleiðslu, þar á meðal hernaðartengdri framleiðslu, aukin.  

Uppfært 10:40

Upprunalega var notast við þýðingu blaðamanns mbl.is úr norska textanum sem birtist á síðu Aftenposten. Tilvitnunum hefur nú verið breytt í samræmi við íslenska útgáfu textans sem finna má á vef utanríkisráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert