Einelti er ekki einkamál

Páll Óskar Hjálmtýsson og Snædís Ásgeirsdóttir eru bæði fórnarlömb eineltis
Páll Óskar Hjálmtýsson og Snædís Ásgeirsdóttir eru bæði fórnarlömb eineltis mbl.is/Golli

Getur verið að þú hafir tekið þátt í því að gera skólagöngu einhvers að lifandi helvíti með því að taka þátt í einelti eða staðið aðgerðarlaus hjá? Einelti er vandamál sem er ekki einkamál og foreldrar bera þar ábyrgð. Umræðan við eldhúsborðið skiptir þar meðal annars máli. Því það skiptir máli hvernig þú talar um Nonna á neðri hæðinni fyrir framan börn þín. 

Fjallað var um einelti í grunnskólum á fundi á vegum samstarfshópsins Náum áttum, sem er forvarna- og fræðsluhópur um velferð barna og unglinga, í morgun.

Sat einn í sjö ár 

Einn þeirra sem sagði sögu sína er Páll Óskar Hjálmtýsson, tónlistarmaður, en í sjö ár sat hann einn í grunnskóla og þurfti að þola einelti í báðum þeim skólum sem hann gekk í, Vesturbæjarskóla og Hagaskóla. Það var því ekki að ástæðulausu að hann valdi að fara í MH í stað MR líkt og flestir hinir í bekknum. Hann var búinn að fá nóg.

En hvernig byrjaði þetta allt saman? Jú hann var lélegur í fótbolta í leikfimitíma. Það þýddi það að drengur sem hafði verið hans besti vinur innan skólans sem utan, flutti sig frá honum og myndaði fjögurra stráka klíku sem stjórnaði lífi Páls Óskars og fleiri bekkjarfélaga næstu sjö árin. 

Því Páll Óskar hefur fundið að hann var ekki einn þrátt fyrir að hafa liðið þannig á meðan eineltinu stóð. Hann segir að þegar bekkurinn hittist fyrir nokkru síðan hafi komið í ljós að fjölmargir höfðu svipaða sögu að segja. „Ég var svo heppinn að vera hvorki digur né rauðhærður,“ segir Páll Óskar. Hann þakkar sínum sæla að hafa alist upp fyrir tíma snjalltækjanna og tóku fleiri í sama streng á fundinum í morgun. 

Ég heiti Snædís og er 14 ára

En Snædís Ásgeirsdóttir er hins vegar ekki svo heppin. Hún er fjórtán ára og hefur búið við einelti nánast alla sína skólagöngu. Hún endaði með því að flýja hverfið sem hún á heima í, Grafarvoginn, eftir að hafa orðið fyrir skelfilegu einelti í tveimur skólum hverfisins og nú stundar hún nám í Ingunnarskóla. Þar ætlar hún að ljúka grunnskólanámi en hún er í níunda bekk. 

Mál Snædísar vakti mikla athygli þegar hún steig fram í byrjun janúar og sagði sögu sína í viðtali við Pressuna.

Hún tekur þátt í fræðsluverkefninu um einelti með þeim Páli Óskari og Magnúsi Stefánssyni, framkvæmdastjóra Marítafræðslunnar. Magnús, ólíkt þeim tveimur, var gerandi ekki þolandi eineltis í æsku. 

Á fundinum í morgun lýsti Snædís þess hvernig hún hafi verið pínd af skólafélögum og nefndi sem dæmi að í tólf ára bekk var hún látin sniffa allan fjandann, til sterk krydd ofl. Ef hún neitaði þá var gengið í skrokk á henni. En síðan tók ekki betra við þegar netáreitið hófst. Þar var húnn hvött til þess að drepa sig hún væri svo ljót, feit að viðkomandi gæti gubbað. 

Efaðist um að hún ætti skilið að lifa

„Ég fór að efast um að ég ætti skilað að lifa, ég  gat ekki hætt að hugsa um hvort ég ætti að lifa,“ segir Snædís.

Í viðtali við mbl.is segir Snædís að það hafi hjálpað henni mikið að stíga fram og eins finni hún að það hafi hjálpað mörgum öðrum. Hún hafi fundið að hún væri ekki ein og skólinn hafi brugðist við, skólastjórnendur, námsráðgjafi og fleiri. Mikil vinna hafi verið lögð í að efla hópastarf innan skólans. „Það er þannig í  dag að stór hluti skólans er í hópastarfi og ef þú ert utan hópsins þá er mjög erfitt að komast inn í hópa í dag. Eins er mjög erfitt að skipta um skóla,“ segir Snædís.

Eina vopnið er að segja frá

Eineltinu er ekki lokið og hún er enn að fá hatursskilaboð. „En ég finn að ég er orðin sterkari. Þegar ég kom fram fékk ég fullt af flottum skilaboðum, meðal annars á Facebook, frá fólki sem ég þekkti ekki neitt. Ég finn að fólk styður mig og mér finnst það æðislegt,“ segir Snædís og hvetur alla þá sem verða fyrir einelti að segja frá. „Það er eina vopnið okkar.“

Magnús segir að það sé skelfilegt að vera þolandi eineltis en það sé líka ömurlegt að vera sá sem beiti aðra ofbeldi sem slíku. Hann hafi átt mjög erfitt með að viðurkenna það sem hann gerði og það hafi verið gríðarlega erfitt sem fullorðinn maður að standa fyrir framan mann sem hann hafði beitt slíku einelti í æsku að viðkomandi hraktist úr bæjarfélaginu sem þeir bjuggu í. 

Lúsapóstur Vöndu

Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstundafræðum sem fjallar um árangursríkar leiðir í eineltismálum, segir að hún vilji sjá eitthvað sem nefnist „Lúsapóstur Vöndu“ þar vísar hún til pósta sem flestir foreldrar kannast við. Upp hefur komið lús í skólanum..... En hún vill sjá slíkan póst varðandi einelti. Því það er ekki einkamál þolanda og geranda og foreldra þeirra. Einelti varðar alla í bekknum og um leið foreldra þeirra. 

Bæði Vanda og Páll Óskar töluðu um það að þegar þau voru í grunnskóla hafi orðið einelti ekki verið til en vandamálið hafi hins vegar alltaf verið til staðar.

Mikilvægasta liðið 

Að sögn Vöndu var einelti í bekkjunum sem hún var í og krakkar með henni í skóla sem leið illa. „Ég  skammaðist mín fyrir að hafa ekki veitt þeim aðstoð og því ákvað ég að berjast gegn einelti,“ segir Vanda en árið 1989 varð eineltisbaráttuliðið til og segir hún það lang mikilvægasta liðið sem hún hafi tekið þátt í. Þar sé enginn formaður, engin félagsgjöld og engin Facebooksíða. „Þetta er ákvörðun sem maður tekur í hjartanu. Ég ætla ekki að leggja í einelti heldur berjast á móti því“ segir Vanda.

Á fundinum lýsti hún hvernig börn skipist í hópa en í stærsta hópnum eru þeir sem mörgum líkar vel við. En svo eru tveir hópar, sem eru með alls um 30% af heildinni, 15% er hópur barna sem er hafnað af samfélaginu og 15% eru týndu börnin sem allir gleyma. Yfirleitt eru það þessir tveir síðastnefndu sem verða fyrir einelti en þau eru oft með slæma félagslega stöðu og eru viðkvæm. Þeir sem eru með greiningar, til að mynda ADHD, verða oft fórnarlömb eineltis og útskúfunar.

Börn í félagslegum vanda eiga oft í vandræðum með að eignast vini og halda þeim. Eru á botninum og eiga erfitt að komast þaðan. Börn með tilfinninga- og hegðunarvanda eru þrisvar til fimm sinnum líklegri sinnum líklegra til að vera hafnað oft vegna þeirra eigin hegðunar eða skorts á réttum félagslegum viðbrögðum

Hún talaði sérstaklega um stelpuhópavandamál þar sem tekist er á um leiðtogahlutverkið og neikvæðir leiðtogar áberandi. En vandinn er ekki bara hjá börnunum því við fullorðna fólkið erum alls ekki nógu dugleg að koma auga á og taka eftir vandamálinu.

Það þarf að grípa inn og það er ekki nóg að segja „krakkar mínir verið nú góð“. Vandinn lagast ekki við það. Baráttan við einelti tekur langan tíma og forvarnarstarf skiptir þar gríðarlegu máli. 

Það bíður enginn upp á einelti

Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum, Save the children á Íslandi, er ein þeirra sem hefur unnið að eineltisverkefni fyrir leikskóla því eineltið byrjar oft snemma.

Á fundinum í morgun lýsti Margrét því þegar hún byrjað að kenna árið 1985 og upplifði einelti meðal nemenda. En henni fannst sárast að heyra kennara tala um að viðkomandi fórnarlambi hafi nú beðið upp á þetta. „það bíður enginn upp á einelti,“ segir Margrét Júlía. 

Oft skorti upp á umburðarlyndi fyrir margbreytileikanum og það verði til einhver viðmið um hvað sé rétt og rangt - hvað sé í lagi og hvað ekki. „Það getur hins vegar breyst strax á morgun eða eftir hentugleika þess sem stjórnar,“ segir Margrét.

Á ábyrgð fullorðna fólksins

Hún segir að flestir kannist við stríðni og einelti strax í leikskóla. Til að mynda enginn vilji leiða einhvern úr hópnum eða sitja hjá honum í matnum. Margrét segist jafnvel vita dæmi þess að börn hafi ekki viljað fara í leikskólann af ótta við að verða fyrir áreiti vegna klæðaburðar.

Hér komi hlutverk foreldra inn - til að mynda hvernig við tölum við matarborðið - getur verið að umtalið þar ýti undir að börn okkar leggi önnur börn í einelti, til að mynda vegna klæðaburðar, nafns, litarháttar eða einhvers annars?

Ekki er mælt með því að segja við barn sem ætlar td. í fjólubláum buxum í leikskólann að hann skuli velja aðrar buxur svo honum verði ekki strítt. Sendum við með því skilaboð til barnsins að það sé í lagi að stríða þeim sem er í fjólubláum buxum. 

Það er ábyrgð okkar fullorðna fólksins að búa börnum þannig umhverfi að einelti þrífist ekki. Það þurfa ekki allir að vera eins, segir Margrét. 

Það á að vera viðurkennt – gildi margbreytileikans. Það er foreldra að vera góðar fyrirmyndir í orði og verki. „Við eigum að þora að standa upp og benda á á jákvæðan og uppbyggilegan hátt,“ segir Margrét og bætir við að það oft aðaláhyggjuefni foreldra í foreldraviðtölum hvernig börnum þeirra líði í skólanum. 

Þeir Magnús og Páll Óskar hafa farið í skóla með fræðslu um einelti. Þar sýna þeir stuttmynd um uppvöxt Páls Óskars og ræða við börn og foreldra þeirra um eineltið og líðan þeirra. Að sögn Páls Óskars er myndin ekki til á netinu enda lifi hún ekki ein og sér heldur sé hún hluti af stærra samhengi sem fer fram þegar þeir ræði við skólahópa á mið- og unglingastigi.

Páll Óskar segir í raun stórkostlegt að hitta alla þessa krakka með athyglina á fullu og steinhalda kjafti. 

Að sögn Magnúsar bættist Snædís svo í teymið nýverið og hann hvetur aðra krakka til þess að stíga fram og segja sína sögu. 

Páll Óskar segir að eineltið sé alls staðar og svo lúmskt að þeir sem hafi lagt aðra í einelti viti stundum ekki einu sinni af því. „Ef þú elst upp við einelti þá getur  það haft áhrif á líf þeirra alla tíð,“ segir Páll Óskar sem fagnar því að fleiri úrræði séu nú í boði fyrir þolendur og gerendur eineltis en var þegar hann var að alast upp.

Páll Óskar tók þá ákvörðun á sínum tíma að reykja hvorki né drekka. Það hafi líka verið ömurlegt að sjá bestu vinkonur sínar á unglingsárunum drepast áfengisdauða í partýum. Vera varnarlausar og að hver sem er hafi getað gert hvað sem er við þær. Nú á snjallsímaöld sé ástandið enn verra þegar hægt er að taka myndir af öllu.

Það þarf hugrekki til þess að stíga fram og segja sína sögu en bæði þeir sem fluttu erindi á fundinum og fundargestir voru sammála um að til þess að hægt sé að vinna gegn eineltinu þurfi allt samfélagið að bregðast við. Einelti er ekki einkamál og það getur eyðilagt líf, eða jafnvel eytt lífi. 

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="360" src="/mblplayer/i/87663/" style="border: 0;" width="640"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>

 Páll Óskar sat einn í sjö ár 

Vanda Sigurgeirsdóttir
Vanda Sigurgeirsdóttir mbl.is/Ómar Óskarsson
Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum, Save the children á …
Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum, Save the children á Íslandi, er ein þeirra sem hefur unnið að eineltisverkefni fyrir leikskóla mbl.is/Golli
Páll Óskar Hjálmtýsson og Magnús Stefánsson gerðu saman myndina Þolendur …
Páll Óskar Hjálmtýsson og Magnús Stefánsson gerðu saman myndina Þolendur og gerendur sem fjallar um einelti og leiðir til að uppræta það. mbl.is/Golli
Páll Óskar Hjálmtýsson og Snædís Ásgeirsdóttir eru bæði fórnarlömb eineltis
Páll Óskar Hjálmtýsson og Snædís Ásgeirsdóttir eru bæði fórnarlömb eineltis mbl.is/Golli
Kröfuganga gegn einelti frá Hólabrekkuskóla
Kröfuganga gegn einelti frá Hólabrekkuskóla mbl.is/Ómar Óskarsson
Kröfuganga gegn einelti frá Hólabrekkuskóla
Kröfuganga gegn einelti frá Hólabrekkuskóla mbl.is/Ómar Óskarsson
Kröfuganga gegn einelti frá Hólabrekkuskóla
Kröfuganga gegn einelti frá Hólabrekkuskóla mbl.is/Ómar Óskarsson
Barnaheill hafa sett af stað átak gegn einelti í leikskólum
Barnaheill hafa sett af stað átak gegn einelti í leikskólum mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert