„Það sem tekið er í burtu hækkar ekki“

mbl.is/Jim Smart

„Það er eitt mikilvægasta hagsmunamál okkar allra að halda aftur af verðbólgunni. En það er alveg ljóst að verðbólga étur ekki upp ávinning fólks af leiðréttingunni. Sá ávinningur heldur gildi sínu þótt verðbólga hækki. Því að það sem hefur verið tekið í burtu hækkar ekki.“

Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, á vefsíðu sinni í dag, en tilefnið er forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag þar sem fram kemur að ávinningur fólks af aðgerðum ríkisstjórarinnar til lækkunar höfuðstóls húsnæðislána gæti horfið með verðbólguskoti sem kynni að koma til vegna kjarasamninga. Í fréttinni er rætt við Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, sem segir að verðbólga myndi éta upp þá niðurfærslu höfuðstóls lánanna.

Jóhannes segir vissulega rétt að hærri verðbólga hækki verðtryggðar skuldir og því mikilvægt að berjast gegn verðbólgu á öllum vígstöðvum. „En verðbólga hækkar ekki það sem búið er að taka í burtu. Sá hluti lána sem búið er að færa niður bætist ekki á aftur. Því er það rangt að tala um að verðbólga éti upp leiðréttinguna. Ávinningurinn af leiðréttingunni heldur gildi sínu. Þannig skiptir leiðréttingin fólk í raun meira máli ef verðbólga hækkar, vegna þess að óleiðrétt lán hefði hækkað enn meira en leiðrétta lánið gerir.“

Jóhannes Þór Skúlason.
Jóhannes Þór Skúlason.
mbl.is