Vill ráðherra á vikulega fundi með Bretum

„Hvaða hvatir stýra því að ráðherra gerir það ekki að forgangsmáli sínu að athuga hvort og þá hvernig Íslendingar geti fengið allt að sjö sinnum hærra verð fyrir orkuna en við erum að selja hana á núna til stóriðju? Við erum að tala um marga tugi milljarða á ári aukalega í ríkissjóð ef rétt reynist,“ sagði Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag þar sem hún brýndi Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra til dáða varðandi mögulega lagningu sæstrengs til Bretlands til flutnings raforku.

Björt benti á að Alþingi hefði afgreitt skýrslu um lagningu slíks sæstrengs til Bretlands í desember 2013 og Ragnheiði Elínu verið gefin skýr skilaboð frá þinginu um að klára þá vinnu sem hafin hefði verið við að meta kosti og galla framkvæmdarinnar. „Skilaboðin voru mjög skýr. Við sögðum: Komdu með þær upplýsingar sem upp á vantar, láttu gera þær hagkvæmni- og umhverfisathuganir sem upp á vantar, farðu í viðræður um fyrirkomulag og verð við bresk stjórnvöld svo þú getir tekið ákvörðun um það hvort verkefnið er málið eða ekki.“

Björt benti á að nú væri eitt og hálft ár liðið frá þeirri afgreiðslu Alþingis. „Hvað í ósköpunum gerir það að verkum að hæstvirtur ráðherra er ekki á vikulegum fundum við Breta til að kanna umfang og samningsgrundvöll? Hvað er það sem tefur hana? Af hverju er ráðherrann ekki á leiðinni að athuga samlegðaráhrifin við uppbyggingu raforkukerfisins á Íslandi? Þessi verkefni geta farið hönd í hönd. Ég vil fá að sjá niðurstöðu af þessari vinnu og Alþingi þarf að kalla mjög skýrt eftir henni því að ráðherra er hér til að framkvæma það sem hér er ákveðið.“

Björt Ólafsdóttir alþingismaður.
Björt Ólafsdóttir alþingismaður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert