Yfirlýsingar ráðherra ekki vandaðir stjórnsýsluhættir

Fiskistofa í Hafnarfirði.
Fiskistofa í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Umboðsmaður Alþingis svaraði í dag kvörtun starfsmanna Fiskistofu. Kvörtuðu þeir yfir yfirlýsingum og bréfi sjávarútvegsráðherra vegna ákvörðunar um að færa Fiskistofu til Akureyrar.

Starfsmönnum Fiskistofu var tilkynnt á fundi þann 27. júní 2014 og síðar með bréfi þann 10. september sama ár um að höfuðstöðvar stofnunarinnar yrðu fluttar til Akureyrar. Var þeim tilkynnt um að flutningurinn ætti að eiga sér stað vorið 2015 og vera lokið í lok þessa árs. Ekki var þó til staðar viðhlítandi lagaheimild fyrir flutningunum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, hefur sagt að lögð hafi verið áhersla á að ákvörðun hafi ekki verið tekin, heldur hafi aðeins verið kynnt áform um slíkan flutning. Segir umboðsmaður að ljóst sé að ákveðin skref hafi verið stigin í málinu til að fylgja eftir „stefnumarkandi ákvörðun“ um flutninginn. Segir umboðsmaður að ef starfsmenn Fiskistofu telja ráðherra hafa raskað réttindum þeirra, sé það verkefni dómstóla að taka afstöðu til slíkra krafna, í tengslum við viðeigandi sönnunarfærslu og mat á hugsanlegri skaðabótaábyrgð.

Umboðsmaður lýsir því þó yfir að yfirlýsingar og bréf ráðherra sem beint var til starfsmanna Fiskistofu og þar með hvernig var staðið að upplýsingagjöf um þetta mál gagnvartþeim af hálfu ráðherra, hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, sér í lagi um það hvort raunveruleg ákvörðun hafi verið tekin um flutninginn eða ekki.

Þá segir umboðsmaður einnig að það samrýmist að hans mati ekki skyldum ráðherra að láta hjá líða að fá ráðgjöf innan ráðuneytisins um það hvort gildandi lög heimili ráðherra að taka ákvörðun um flutning höfuðstöðva Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar, áður en hann tilkynnti starfsmönnum Fiskistofu málið. 

Að lokum mælist umboðsmaður til þess að ráðherra geri starfsmönnum Fiskistofu formlega grein fyrir stöðu þess núog hvers þeir megi vænta um framhaldið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert