Slátrun kemur í veg fyrir dráp

Sveinn Vilberg Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls.
Sveinn Vilberg Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls. Árni Sæberg

„Við erum að fara að slátra á morgun. Það voru veittar undanþágur til slátrunar á 50 þúsund kjúklingum og þúsund kalkúnum um helgina,“ segir Sveinn Vilberg Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls. 

Magnið skiptist niður á þá kjúklinga- og kalkúnabændur sem sóttu um undanþágu hjá undanþágunefnd sem skipuð er fulltrúa frá Dýralæknafélagi Íslands og fulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem fjármálaráðuneytið skipaði.

Dýralæknir frá Matvælastofnun þarf að vera viðstaddur þegar slátrað er og hefur því engin slátrun farið fram síðan á mánudaginn þegar verkfall dýralækna í Dýralæknafélagi Íslands hjá Matvælastofnun hófst.

„Við vonum að það komi eitthvað um helgina varðandi hvernig fyrirkomulagið verður á þessu í næstu viku. Maður vonar að þetta geti haldið áfram eftir helgina,“ segir Sveinn en komið var að þolmörkum, og gott betur en það.

„Það fékkst ekki heimild til að slátra. Þéttleikinn þolir ekki marga daga umfram þegar innlagnir eru skipulagðar miðað við ákveðna daga. Þá þolir þetta ekki nema einn, tvo daga,“ segir hann.

Frétt mbl.is: Vill ekki þurfa að drepa dýrin

Greint var frá því á mbl í vikunni að undanþágunefndin hafi í svörum sínum bent á að aðrar leiðir séu færar til að fækka fuglum í húsunum en slátrun. Var því ljóst að hefði undanþágubeiðni kjúklingabænda ekki verið samþykkt hefði þurft að aflífa kjúklinga með öðrum hætti, t.d. kolsýru.

mbl.is