Evaristti ætlar ekki að greiða sektina

Evaristti hellti fimm lítrum af rauðum ávaxtalit í Strokk.
Evaristti hellti fimm lítrum af rauðum ávaxtalit í Strokk. Ljós­mynd/ face­book.com/​pages/​Marco-Evarist­ti

Listamaðurinn Marco Evaristti, sem gerði Strokk bleikan við sólarupprás í gær með því að hella í hann fimm lítrum af rauðum ávaxtalit, hefur verið sektaður um 100 þúsund krónur fyrir að raska náttúru en fossar, hverir og aðrar heitar uppsprettur, svo og hrúður og hrúðurbreiður, 100 m2 að stærð eða stærri njóta sérstakrar verndar í lögum um náttúruvernd frá árinu 1999.

Evaristti  segir að eftir að hafa ráðfært sig við lögfræðinga hérlendis sé hann búinn að ákveða að greiða ekki sektina. Hann segir gjörninginn hafa verið fallegan og að hann hafi farið mjög varlega. „Ég var mjög meðvitaður um að þetta hefði ekki skaðleg áhrif á umhverfið,“ segir Evaristti  og bætir við að liturinn sé nú þegar horfinn.

Hann segir það hafa komið sér á óvart að lögreglan á Suðurlandi hafi sektað hann og segir að þegar lögregla hafði uppi á honum hafði hann búist við að verða spurður út í það hvers vegna hann framkvæmdi gjörninginn og hvað hann hefði sett ofan í hverinn.

Evaristti  bætir við að hann hafi afhent lögreglunni á Suðurlandi gögn frá Umhverfisstofnun Danmerkur sem sýni fram á að ávaxtaliturinn sem hann notaði hafi ekki skaðleg áhrif á hverinn. 

„Þeir verða þá að stöðva allar rútur“

„Ég ætla með sektina fyrir dómstóla. Landeigendur raska þarna umhverfinu og ef þeir ákveða að taka slaginn þá tel ég mig vera með gott mál í höndunum. Þeir verða þá að taka niður raflínur á svæðinu og stöðva allar rútur sem keyra á svæðinu með tilheyrandi mengun. Svo verður að stöðva öll eldfjöll sem eru hérna því askan fer í hverinn. Ég veit það ekki, það eru svo margir hlutir,“ segir Evaristti .

Hann fer frá Íslandi á morgun og þarf hann að skila inn yfirlýsingu þess efnis að hann ætli að greiða sektina til lögreglunnar á Suðurnesjum kjósi hann að gangast við henni og því hefur hann nokkra klukkutíma til viðbótar til þess að ákveða hvað verður.

Fréttir mbl.is um málið: 

Ekki list heldur sóðaskapur

Hellti ávaxtalit í Strokk

Hér má sjá myndskeið sem sýnir gjörning Evaristti:

The Rauður Thermal Project, 2015

Posted by Marco Evaristti on Friday, April 24, 2015
​Marco Evarist­ti.
​Marco Evarist­ti. Ljós­mynd/ face­book.com/​pages/​Marco-Evarist­ti
Marco Evarist­ti var sektaður um 100 þúsund krónur.
Marco Evarist­ti var sektaður um 100 þúsund krónur. Ljósmynd/Marco Evarist­ti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert