„Ég get ekki verið rólegur hér“

Nepalskir björgunarsveitarmenn grafa upp lík úr rústum húss í Katmandú …
Nepalskir björgunarsveitarmenn grafa upp lík úr rústum húss í Katmandú í dag. AFP

„Ég er frá þeim svæðum sem komu verst út úr jarðskjálftanum, Katmandú og Gorkha. Ég verð að fara til Nepal, ég get ekki verið rólegur hér,“ segir flúðaleiðsögumaðurinn Anup Gurung í samtali við mbl.is. Gurung, sem hefur verið búsettur hér á landi í fimmtán ár, heldur heim til Nepal á föstudaginn til þess að reyna að hjálpa fórnarlömbum jarðskjálftans sem skók Nepal og nágrannalönd á laugardaginn.

Gurung á stóra fjölskyldu og stóran vinahóp í Nepal og sem betur fer komust þau öll lífs af. Yfir 3.700 létust í skjálftanum og er talið að tala látinna muni hækka enn frekar.

Gurung tók ákvörðun um að fara heim til Nepal í gær og í kjölfarið ákvað hann að hrinda af stað söfnun á hlýjum fötum og teppum til þess að taka með sér. Sú söfnun hefur gengið vonum framar og mun Jónar Transport flytja hjálpargögnin til Nepal.

„Ég átti svolítið erfitt með að ákveða hvort ég gæti farið. Ég er eigandi Viking Rafting sem er fyrirtæki sem býður upp á flúðasiglingar og nú er sumarið loks að byrja. Við opnuðum reyndar bara í gær og því var erfitt að ákveða að fara,“ segir Gurung en hann reynir að fara heim til Nepal allavega einu sinni á ári.

Best að hjálpa með fjárhagsstuðning

Hann segir að besta leiðin til þess að hjálpa Nepölum sé með fjárhagsstuðningi. „Í gær höfðu íslenskir vinir mínir samband við mig og spurðu hvernig hægt væri að hjálpa Sumir þeirra hafa farið til Nepal en sumir ekki. Vinur minn ákvað að besta leiðin til þess að hjálpa væri að stofna einn reikning sem ég hefði aðgang að. Með þessu vilja þau sjá til þess að peningurinn fari á réttan stað,“ segir Gurung en reikningurinn var opnaður í morgun. Að sögn Gurung hafa viðbrögðin verið ótrúleg eftir að hann setti reikningsupplýsingarnar inn á Facebook.

Gurung er þakklátur íslensku vinum sínum og segir að án þeirra hafi þetta ekki verið mögulegt. Hann er einnig þakklátur Jónar Transport fyrir að bjóðast til þess að flytja það sem safnast hefur af hjálpargögnum til Katmandú. „Ég tek það sem ég get með mér en restin fer í gegnum Jónar Transport,“ segir Gurung. Hann verður í Nepal í tvær vikur. „Svo kem ég heim og þá getur sumarið vonandi byrjað.“

Þeir sem vilja styrkja hjálparstarf í Nepal geta lagt pening inn á reikning 0130 05 060479 kt. 010177-3679. Allt sem safnast fer beint í starfið í gegnum Gurung. 

Anup Gurung hefur búið hér á landi í fimmtán ár.
Anup Gurung hefur búið hér á landi í fimmtán ár. Ljósmynd úr einkasafni.
AFP
AFP
mbl.is