9% telja Sigmund Davíð heiðarlegan

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

MMR kannaði nýlega álit almennings til persónueiginleika nokkurra stjórnmálaleiðtoga. Í könnuninni voru svarendur beðnir um að meta hvort nokkur persónueinkenni ættu við stjórnmálaleiðtogana eða ekki.

Ef skoðuð eru svör þeirra sem tóku afstöðu má sjá að flestir töldu Katrínu Jakobsdóttur vera gædda þeim eiginleikum sem spurt var um. Meðal annars töldu 48% Katrínu standa við eigin sannfæringu, 47% töldu Katrínu vera heiðarlega og 36% töldu hana gædda persónutöfrum.

Þetta kemur fram í frétt á vef MMR.

Ólafur Ragnar var einnig talinn gæddur nokkrum af þeim eiginleikum sem spurt var um. 37% töldu Ólaf Ragnar vera ákveðinn, 33% töldu Ólaf Ragnar vera sterkan og 30% töldu hann vera fæddan leiðtoga.

40% töldu Birgittu Jónsdóttur standa við eigin sannfæringu og 32% töldu hana vera í tengslum við almenning.

34% töldu Dag B. Eggertsson vera gæddan persónutöfrum.

Fáir tengdu leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna við neðangreinda eiginleika. Þannig töldu 50% þeirra sem tóku afstöðu enga neðangreindra eiginleika eiga við um Sigmund Davíð Gunnlaugsson og 40% töldu enga neðangreindra eiginleika eiga við um Bjarna Benediktsson.

Aðeins 9% töldu Sigmund Davíð vera heiðarlegan, 8% töldu Bjarna Benediktsson standa vörð um hagsmuni almennings, 5% töldu Sigmund Davíð vera gæddan persónutöfrum og 5% töldu Sigmund Davíð og Bjarna Benediktsson vera í tengslum við almenning.

Könnunin var framkvæmd dagana 30. mars til 8. apríl 2015 og var heildarfjöldi svarenda 1060 einstaklingar, 18 ára og eldri.

mbl.is