Gylfi: ríkisstjórn ríka fólksins

Gylfi Arinbjörnsson, forseti ASÍ, hélt ræðu í Stapa í Reykjanesbæ.
Gylfi Arinbjörnsson, forseti ASÍ, hélt ræðu í Stapa í Reykjanesbæ.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, var harðorður í garð atvinnurekenda og ríkisstjórnarinnar í ræðu sinni á 1. maí sem hann flutti í Reykjanesbæ. Sagði hann ríkisstjórnina vera grímulausa í því að létta byrðum af breiðum bökum og flytja á þá sem minna mega sín. Þá sé þolinmæði sambandsins gagnvart atvinnurekendum þrotin og ekki hjálpi þar til þegar viðbrögð einstakra forystumanna stórfyrirtækja séu hroki og fyrirlitning.

Hækka gjöld á tekjulága en lækka á aðra

Í ræðunni rifjaði Gylfi upp að matarskattur hefði verið hækkaður, kostnaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu aukinn og bótatími atvinnulausra styttur. Á sama tíma hafi eignarskattur á ríkasta fólkið verið aflagður og veiðigjöld á útgerðina stórlega lækkuð.

„Hvernig má það vera, að stjórnvöld ákveða að úthluta 80 milljörðum af sameiginlegum skatttekjum okkar til þeirra sem ekki eru í neinum sérstökum húsnæðisvanda á sama tíma og þau skella skollaeyrum við kröfum okkar um framlög til að tryggja ungu fólki og tekjulágum öruggt húsnæði,“ sagði Gylfi og bætti við: „Það er því ekki nokkur vafi á því að þetta er og hefur verið ríkisstjórn ríka fólksins.“

Er of mikill jöfnuður orðinn vandamál?

Gylfi gagnrýndi Bjarna Benediktsson fyrir orð sín um jöfnuð og sagði hann einkennandi fyrir ágreininginn á vinnumarkaði þegar Bjarni talaði um að jöfnuðu væri orðinn of mikill. „Mig langar að spyrja ykkur í einlægni, og svari nú hver fyrir sig, er of mikill jöfnuður orðinn vandamál á Íslandi?“ sagði Gylfi í ræðu sinni.

Orð ríkisstjórnarinnar um að hún sé ekki bundin af ákvörðunum fyrri ríkisstjórna var Gylfa einnig ofarlega í huga. Sagði hann að við slíkar aðstæður væri vandséð hvernig launafólk gæti reitt sig á aðkomu stjórnvalda við úrlausn kjaradeilna. Sagði hann þetta skeytingaleysi gagnvart þríhliða viðræðum vera ein meginástæðan fyrir þeim trúnaðarbresti sem ríkti á milli vinnumarkaðarins og stjórnvalda.

Svik ríkisstjórnar í Evrópumálum

Þá kom Gylfi einnig inn á Evrópumálin og sagði að svik stjórnvalda varðandi kosningu um áframhaldandi viðræður vera dæmi um það að ríkisstjórnin væri að vinna gegn hagsmunum þorra fólks í landinu. Sagði hann áhættu almennings og fyrirtækja á gengisfellingu við afnám hafta ef hér væri í notkun evra. „Það er því ekki boðlegt að ríkisstjórn sem ætlast til þess að launafólk stemmi væntingar sínar til bættra lífskjara af m.v. efnislegar og efnahagslegar forsendur þjóðarbúsins, slái út af borðinu eina raunhæfa kostinum sem gæti lagt grunnin að traustari peningamálstefnu þjóðarinnar, lækkað vexti og matarverð umtalsvert,“ sagði Gylfi.

Gylfi sagðist vera talsmaður þess að verkalýðshreyfingin eigi að beita afli sínu af hógværð og skynsemi og nefndi stefnuna á Norðurlöndunum sem fyrirmynd. Hann sagði slíka stefnu þó hvíla á þeirri meginforsendu að það sé á ábyrgð allra að draga úr launamun og bæta kjör þeirra lægst launuðu.

Hér er vitlaust gefið

Við núverandi aðstæður sagði hann slíkt þó ekki upp á teningnum. „Af hálfu Alþýðusambandsins verður engin sátt um það að almennt launafólk verði eitt látið axla ábyrgð á forsendum gengis og verðstöðugleika á meðan aðrir taki sér launahækkanir svo tugum prósenta skipti,“ sagði Gylfi. Hér á landi hallar verulega á launafólk þegar kemur að skiptingu verðmæta að sögn Gylfa. „fullyrði ég að hér sé vitlaust gefið.“

Langlundargeð gagnvart atvinnurekendum þrotið

Rifjaði hann upp að aðildarfélög ASÍ hafi löngum verið treg til að grípa til verkfallsvopnsins vegna mikils samfélagskostnaðar og þeirrar ábyrgðar sem því fylgir. „Það er langt síðan við höfum beitt þessu vopni okkar en ég lít hins vegar þannig á að það sé búið að stilla almennu launafólki upp við vegg og við eigum engra annarra kosta völ en að grípa til verkfallsvopnsins. Ekki einungis hafa stjórnvöld misboðið okkur með framgöngu sinni heldur er langlundargeð okkar gagnvart atvinnurekendum þrotið og ekki bætir úr skák þegar einu viðbrögð einstakra forystumanna stórfyrirtækja eru hroki og fyrirlitning,“ sagði Gylfi.

Frá fundinum í Reykjanesbæ.
Frá fundinum í Reykjanesbæ.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert