Afhenti ríkisbanka án heimilda

Víglundur Þorsteinsson segir nauðsynlegt að taka upp dómsmál vegna ákvarða …
Víglundur Þorsteinsson segir nauðsynlegt að taka upp dómsmál vegna ákvarða ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. mbl.is/Kristinn

Víglundur Þorsteinsson lögfræðingur telur hafið yfir allan vafa að þau gögn sem hann hafi sent Alþingi geymi ítarlegar upplýsingar um alvarleg lögbrot ráðherra, embættismanna og bankamanna á árunum 2009 til 2013. Þinginu sé því sá einn kostur fær að senda málið til ríkissaksóknara.

Þetta kemur fram í bréfi sem Víglundur hefur sent til alþingismanna, en hann minnir um leið á að nú séu liðnir liðlega 14 mánuðir síðan hann sendi til þeirra fyrst gögn og skrif sem hann taldi benda til stórfelldra lögbrota ráðherra, eins eða fleiri, á árunum 2009 til 2013. Viðbótargögn sendi hann síðan þinginu í janúar á þessu ári. 

Hann hefur ennfremur skrifað Brynjari Níelssyni vegna skýrslu sem Brynjar vann um málið. Víglundur segir að skýrslan sé í meginatriðum staðfesting á því sem hann hafi þegar sett fram. Þá segir Víglundur, að skýrsla Brynjars breyti því ekki sem hann hafi áður rökstutt með gögnum að líklega hafi víðtæk lögbrot ráðherra, embættismanna, starfsmanna ríkisbankanna og slitastjórna átt sér stað á árinu 2009 og síðar með ómerkingu ákvarðana Fjármálaeftirlitsins frá október 2008. 

Greip heimildarlaust inn í lögmælt ferli

„Þessi brot fólust í því að ríkisstjórnin þáverandi [ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna] greip heimildarlaust inn í lögmælt ferli neyðarlaganna um stofnun hinna nýju ríkisbanka. Kom í veg fyrir að Fjármálaeftirlitið fengið lokið sínum ákvörðunum. 

Þess í stað hóf hún samninga við fulltrúa hinna erlendu kröfuhafa sem lauk með því að þeim voru gefin skotleyfi á landsmenn og fyrirtæki. Án heimilda afhenti hún kröfuhöfunum tvo ríkisbanka og stjórnunarrétt yfir þeim þriðja.

Þær ákvarðanir höfðu þær afleiðingar að kröfuhafarnir auðguðust með ólögmætum hætti og opinberri hjálp um 400-500 milljarða króna á kostnað landsmanna. Sú ólögmæta auðgun er í dag einn af helstu ásteytingarsteinum fyrir afnámi gjaldeyrishaftanna,“segir Víglundur í bréfi til alþingismanna.

Tap ríkisins á bilinu 60 - 100 milljarðar

Víglundur segir að svo sýnist við lestur á tveggja nýútkominna bóka, Bylting - og hvað svo? eftir Björn Jón Bragason og Andersenskjölin eftir Eggert Skúlason, að fyrrverandi ríkisstjórn hafi í heimildarleysi ráðstafað fjármunum ríkissjóðs framhjá reglum neyðarlaganna í starfsemi fjölmargra smærri lánastofnana og gengist í ábyrgð fyrir aðra í heimildarleysi. Þetta viirðist hafa verið framkvæmt að hentugleikum án þess að afla fyrirfram heimilda Alþingis. 

„Fæ ekki betur séð en að þessar fjárhæðir í heild nemi um 230 milljörðum króna og að tap ríkisins vegna þessa muni verða á bilinu 60 - 100 milljarðar þegar öll kurl verða komin til grafar. Þessar ráðstafanir sýnast mér skýr brot á 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar,“ segir Víglundur.

„Ég tel hafið yfir allan vafa að þau gögn sem ég hef sent Alþingi geymi ítarlegar upplýsingar um alvarleg lögbrot ráðherra, embættismanna og fleiri svo sem bankamanna á árunum 2009 til 2013. 

Þinginu sé því sá einn kostur fær að senda ríkissaksóknara mál þetta til frekari rannsóknar og meðferðar.

Þó ekki muni til þess koma að kalla saman Landsdóm vegna fyrningarákvæða í lögum um að hann sýnast sum brotanna vera þannig að þau eru væntanlega ófyrnd samkvæmt reglum hegningarlaga nr. 19/1940, væntanlega þá öll sbr. 81. gr. laganna,“ skrifar Víglundur ennfremur. 

Kallar á aðgerðir til leiðréttinga

Í svarinu við skýrslu Brynjars segir Víglundur, að það sé ljóst að eftirleikur sá þegar bankarnir innheimtu annað en þeir áttu kalli á aðgerðir til leiðréttinga. Í sumum tilvikum hafi dómstólar leiðrétt hlut vegna ólögmætra gengisbundinna lána en ekki í öllum. Í ýmsum tilvikum hafi tjón og töp verið gengin fram áður en til skuldaleiðréttinga núverandi ríkisstjórnar kom. 

Víglundur segir rétt að hafa það skýrt, að samkvæmt þeim gögnum hafi engin gengislán verið flutt í hina nýju banka, eingöngu kröfur í íslenskum krónum sem eftir afskriftir hafi verið færðar í stofnefnahag nýs banka þannig. Tilgangurinn hafi verið að eyða allri gengisáhættu nýju innlendu bankanna. Vegna inngripa ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hafi FME ekki fengið svigrúm til að ljúka verkinu. 

Löggjöf um endurupptöku vel fallin til sáttar á Íslandi

„Það er skoðun mín að vegna þessa blekkingarleiks þurfi þingið að setja lög um endurupptöku mála þar sem bankar hafa innheimt umfram þær kröfur sem þeir eignuðust. 

Setning þeirra laga þarf ekki að vera flókið verk, sérstaklega ef þau myndu opna samhliða fyrir leið aðila til að semja um mál að nýju áður en til endurupptöku kæmi. 

Slík löggjöf væri vel fallin til sáttar í okkar þjóðfélagi sem enn er að berjast við þungar afleiðingar hrunsins þjakað af tortryggni og óvild. 

Slík lagasetning væri að mínu mati í samræmi við það ákall íslenskra kjósenda um heiðarleika sem nú birtist okkur í skoðanakönnunum sem öflugur stuðningur við Pírata. Sá stuðningur er ákall um ný vinnubrögð, gagnsæi og heiðarleika,“ skrifar Víglundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert