Stjórnvöld brjóta lög á börnum

Hjördís Eva Þórðardóttir réttindafræðslufulltrúi UNICEFá Íslandi
Hjördís Eva Þórðardóttir réttindafræðslufulltrúi UNICEFá Íslandi mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafi verið lögfestur hér á landi fyrir rúmum tveimur árum er víða pottur brotinn þegar kemur að því að framfylgja honum af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur eftirlit með innleiðingu Barnasáttmálans, en öllum ríkjum sem hafa fullgilt hann, ber að mæta fyrir nefndina á fimm ára fresti.  Í kjölfar fyrirtöku nefndarinnar með einstökum ríkjum fá þau athugasemdir frá nefndinni sem ætlast er til að þau fylgi við innleiðingu sáttmálans. 

Síðasta fyrirtaka íslenska ríkisins fyrir nefndinni var árið 2011.  Nefndin gerði þá fjölda athugasemda við framkvæmd Barnasáttmálans hér en nú, fjórum árum síðar, vantar mikið upp á að Ísland hafi bætt úr því sem fundið var að af hálfu barnaréttarnefndarinnar og því ljóst að lög eru brotin á börnum hér á landi.

Barnasáttmálinn er alþjóðlegur samningur sem viðurkennir mannréttindi barna. Hann leggur þá skyldu á aðildarríki að þau tryggi að hvert barn, án nokkurrar mismununar, njóti sérstakrar verndar og umönnunar, að það geti að fullu þroskað hæfileika sína og getu, vaxi úr grasi við ást, skilning og hamingju og sé upplýst um og taki þátt í að móta málefni sem það varða.

Öll ríki heims utan tvö hafa fullgilt Barnasáttmálann. Einungis Suður-Súdan og Bandaríkin hafa ekki fullgilt sáttmálann þótt bæði ríkin hafi skrifað undir hann.

Ekki hægt að tryggja jafnræði þegar upplýsingar liggja ekki fyrir

Hjördís Eva Þórðardóttir, réttindafræðslufulltrúi UNICEF á Íslandi, er ein þeirra sem hafa vissar áhyggjur af stöðu mála enda styttist óðum í næstu yfirferð Barnaréttarnefndar SÞ á því hvernig Barnasáttmálanum er framfylgt hér á landi.

Í lokaathugasemdum sínum hefur nefndin ítrekað bent á að hér safni stjórnvöld ekki saman gögnum með markvissum hætti um lífsskilyrði barna hér á landi. En ein af grundvallarforsendum Barnasáttmálans er jafnræði og bann við mismunun.
Að sögn Hjördísar er í raun ekki  hægt að gæta þess að börn sitji hér við sama borð, hverjar sem aðrar aðstæður þeirra eru, ef ekki er haldið utan um slíkar upplýsingar  á einum stað.

Hún segir að í athugasemdunum barnaréttarnefndarinnar frá 2011 séu stjórnvöld hvött til að samræma upplýsingar sem safnað er saman á ólíkum stöðum og þær settar í upplýsingabanka svo hægt sé að komast það því  hvar þurfi að bæta aðbúnað barna, með tilliti til þess að stuðla að jafnræði.

Með því að haldið sé utan um slíkar upplýsingar  er hægt sjá staðreyndir á einum stað og hægt að leita leiða til úrbóta.

Mismunandi milli sveitarfélaga hvað stuðningur er í boði

„Stjórnvöld geta ekki beitt sér með markvissum hætti gegn misskiptingu meðal barna ef þau hafa ekki undir höndum greinagóð gögn um hver staða barna hér á landi sé, mælistiku á velferð barna.”

„Til að mynda er afar ólíkt milli sveitarfélaga hvernig  haldið er utan um málefni barna og ungmenna. Það er takmarkað samræmi í þeirri þjónustu sem sveitarfélög bjóða upp á,“ segir Hjördís og nefnir sem dæmdi að stuðningur sem sveitarfélög veita börnum með hvers kyns skerðingar geti verið mjög misjafn.

Barn með t.d. geðröskun eða downs-heilkenni gæti átt rétt á stuðningi í ákveðinn fjölda klukkustunda í viku í einu sveitarfélagi en svo mun færri í því næsta.  Það er ekki sama í hvaða sveitarfélagi barnið býr hvað varðar þjónustu og aðstoð.

Hvergi er haldið utan um hvaða stuðning sveitarfélög eru að bjóða þessum börnum og enginn virðist fylgjast með því hvort/hvar misræmis gæti í þessari mikilvægu þjónustu.  Þetta misræmi er jafnvel svo mikið að fólk hefur neyðst til þess að flytja á milli sveitarfélaga svo börn þeirra njóti þeirrar þjónustu sem þau eigi rétt á.

Börn fá lítið vægi í umræðunni

Hjördís segir að svo virðist sem málefni barna hafi oft lítið vægi í umræðunni í undanfara sveitarstjórnarkosninga.

„Mér finnst umræðan um t.d. dagvistunar- og skólamál gjarnan vera mjög foreldramiðuð og snúast að mestu leyti um kostnað foreldra við dagvistun eða máltíðir á skólatíma. Það vantar verulega upp á barnamiðaða umræðu um þessi mál, gæði dagvistunar og kennslu, áhrif bekkjarstærðar á líðan og námsárangur nemenda og hlutfall menntaðs starfsfólks á leikskólum miðað við fjölda barna.

Stjórnmálamenn þurfa í auknum mæli að gerast talsmenn barna, börn hafa ekki kosningarétt og hafa því mjög takmarkaða möguleika á að koma skoðunum og reynslu sinni á framfæri.  Við þurfum heildstæðari nálgun við það að uppfylla réttindi allra barna hér á Íslandi. Þetta gæti breyst ef stjórnvöld og sveitarstjórnir myndu vinna saman á þessu sviði en eitt það fáa  sem hefur verið gert í þá átt er að UNICEF og umboðsmaður barna fengu styrk frá velferðar- og innanríkisráðuneytinu til að geta hafið vinnu við gerð verkfærakistu um innleiðingu Barnasáttmálans fyrir sveitarfélög. Hins vegar hefur ekkert fjármagn verið sett í málefnið að öðru leyti. Til að mynda að aðstoða sveitarfélögin við innleiðingu sáttmálans með markvissum hætti,“ segir Hjördís.

Félags- og húsnæðismálaráðherra er að ljúka við að gera opinbera fjölskyldustefnu til ársins 2020 og mun sú stefna taka mið af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Ef hún hlýtur brautargengi er hún mikilvægt skref í átt að innleiðingu sáttmálans hér á landi, bætir Hjördís við.

Ekki nóg að lögfesta og síðan ekki söguna meir

Enn eigi íslensk stjórnvöld eftir að setja sér stefnu um hvernig eigi að framfylgja Barnasáttmálanum hér á landi. „Sáttmálinn var lögfestur hér fyrir tveimur árum en hann var fullgiltur árið 1992. Það er einfaldlega ekki nóg að lögfesta og síðan ekki söguna meir. Það er því hætta á því þegar við förum næst fyrir barnaréttarnefndina árið 2018 að við fáum sömu athugasemdir og síðast, nema mun harðorðari,“ segir Hjördís.

Þeir sem koma að málefnum barna telja eðlilegt að stjórnvöld geri þá kröfu að landslögum sé framfylgt, þar á meðal Barnasáttmálanum. Því með lögfestingu séu gerðar meiri kröfur til Íslands.

Á sama tíma og Ísland stendur sig mjög vel á sumum sviðum þá vantar mikið upp á á öðrum sviðum, segir Hjördís en hún segir að alvarleg athugasemd hafi verið gerð við brottfall úr framhaldsskólum hér á landi. Sú vinna sé farin af stað og markvisst unnið að því að draga úr brottfalli.

Garðabær eina sveitarfélagið sem er byrjað að innleiða sáttmálann

Það er engin ein stofnun/aðili sem hefur umsjón með framkvæmd Barnasáttmálans hér á landi og ekki hefur átt sér stað nein umræða um ábyrgð sveitarfélaga í þessu ljósi.  Sveitarfélög annast stærstan hluta þeirrar þjónustu sem hefur beina tenginu við daglegt líf barna á Íslandi, leik- og grunnskóla, félagsþjónustu, barnaverndarmál, málefni einstaklinga með skerðingu o.s.frv. 

Ef að sveitarfélög vinna ekki markvisst með sáttmálann og nota hann sem hagnýtt verkfæri í þjónustu við börn og fjölskyldur verður seint hægt að segja að hann hafi raunverulegt gildi á Íslandi, segir Hjördís.

Garðabær er eina sveitarfélagið sem er byrjað að innleiða sáttmálann en Reykjavík og Akureyri hafa myndað starfshópa til að skoða möguleika á innleiðingu sáttmálans.

„Við hjá UNICEF bindum miklar vonir við að þessi sveitarfélög reynist öðrum sveitarfélögum góðar fyrirmyndir og stuðli að því að stjórnvöld móti heilstæða stefnu í málaflokkinum.

Við megum ekki gleyma því að Ísland er mjög framarlega varðandi réttindi í víðum skilningi þess orðs og Ísland er að mörgu leiti fyrirmynd annarra ríkja. Því fylgir mikil ábyrgð sérstaklega því við höfum lögfest Barnasáttmálann, sem er ekki sjálfgefið því það er ekkert sjálfgefið að sáttmálinn sé settur í landslög. Til að mynda er hann lögfestur á Íslandi og Noregi en ekki í Danmörku, Svíþjóð eða öðrum löndum í Evrópu,“ segir Hjördís.

 Ef að sveitarfélög vinna ekki markvisst með sáttmálann og nota hann sem hagnýtt verkfæri í þjónustu við börn og fjölskyldur verður seint hægt að segja að hann hafi raunverulegt gildi á Íslandi, segir hún. 

Setja verður fjármagn í verkefnið og forgangsraða

„Barnasáttmálinn á ekki bara að vera plagg upp á vegg heldur eiga börn og ungmenni  rétt á því að sjá hann  settan í samhengi við daglegt líf þeirra. Við hjá UNICEF viljum sjá honum framfylgt en það verður ekki gert  nema með því að bregðast við athugasemdum sem gerðar voru árið 2011 og setja fjármuni í verkið og forgangsraða verkefnum,“ segir Hjördís.

Ein af fjórum meginstoðum Barnasáttmála SÞ er að finna í 12. grein hans sem kveður á að börnum sem geta myndað sér eigin skoðanir skuli tryggður réttur til þess að láta þær í ljós.

Hjördís segir að ekki sé nægjanlega leitað til barna þegar málefni þeirra séu til umræðu. Til að mynda þegar niðurstaða PISA könnunarinnar liggur fyrir. Hún segir að það sé öruggt að krakkar í grunnskólum landsins hafi margt um prófin að segja og þann undirbúning sem þarf fyrir prófið.

„Eða bara almennt um kennslu og annað sem lýtur að börnum og ungmennum. Það eru jú þau sem verið er að fjalla um,“ segir hún og tekur sem dæmi að aðeins 30% aðspurðra barna í 5. -7. bekk þekki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Hún segir að í nágrannalöndunum sé þekkingin meiri en hér. Nefnir hún að það sé stórt áhyggjuefni að meginþorri barna á íslandi þekki ekki réttindi sín og hafi þar af leiðandi takmarkaða færni til setja réttindin í samhengi við líf sitt.  Til að mynda sýndi könnun UNICEF á Íslandi árið 2009 að mikið virðist vanta upp á að börn hér á landi viti að fullorðnir megi ekki beita þau líkamlegum refsingum.

Hjördís bendir á að börn hér á landi virðist ekki skilja að þau eigi fullan rétt á setja fullorðnu fólki mörk.  Aðstæðumunurinn milli barna og fullorðinna sé mikill og í því felist viss áhætta.  Börn eru háð því að fullorðnir vilji þeim allt gott og að þeir beri hag þeirra fyrir ævinlega fyrir brjósti. 

„Því miður er ekki alltaf svo, þess vegna er mikilvægt að börn þekki rétt sinn og skilji að fullorðnir hafi ekki alltaf rétt fyrir sér, að skoðanir og líðan þeirra hafi vægi. Eins séu ranghugmyndir  ríkjandi meðal íslenskra ungmenna varðandi hver réttindi þeirra séu. Þarna sé verið að ræða grundvallarmannréttindi sem börn og unglingar eiga að þekkja alveg eins og fullorðnir, “segir Hjördís.

Næsta fyrirtaka Íslands hjá barnaréttarnefndinni  er í maí 2018 og er nokkuð víst að þau muna ganga enn harðar að stjórnvöldum í kjölfar þess að við lögfestum samninginn í febrúar 2013, segir Hjördís. 

„Lögfestingunni fylgdi ekkert fjármagn og engin áætlun um innleiðingu sáttmálans.  Þar eigum við enn mjög langt í land, þó við séum að sjálfsögðu á alþjóðlegum mælikvarða vissar fyrirmyndir,“ segir Hjördís.

Þegar íslenska sendinefndin kom síðast fyrir nefndina (árið 2011) kom fram að barnaréttarnefndin fagnaði  því að Ísland hafði brugðist við hluta þeirra athugasemda sem áður höfðu verið gerðar við íslensk stjórnvöld. En hvetur íslensk stjórnvöld um leið til þess að bregðast við  þeim sem höfðu þá enn ekki komið til framkvæmda eða ekki verið framkvæmd á fullnægjandi hátt. Þar eru nefnd atriði eins og  skort á gagnasöfnunarkerfi, mikið brottfall barna innflytjenda úr skóla, takmarkaða fræðslu um barnasáttmálann og kröfuna um tvöfalt saknæmi. Jafnframt hvetur nefndin aðildarríkið til að tryggja nægilega eftirfylgd með þessum lokaathugasemdum.

„Nefndin mælist til þess að aðildarríkið geri ráðstafanir til setja á fót skilvirkt og varanlegt kerfi til samræmingar á framkvæmd stefnumiða um réttindi barnsins milli allra hlutaðeigandi aðila og stofnana á öllum stigum. Þessu kerfi skal séð fyrir nauðsynlegum mannafla, tæknilegum tilföngum og fjármunum til að framkvæma stefnumið um réttindi barnsins sem eru heildstæð, samfelld og samræmd á lands- og svæðisvísu sem og sveitarstjórnarstigi,“ segir í athugasemdum frá barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Garðabær er eina sveitarfélagið sem er byrjað að innleiða Barnasáttmála …
Garðabær er eina sveitarfélagið sem er byrjað að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
Aðeins 30% aðspurðra barna í 5. -7. bekk þekki Barnasáttmála …
Aðeins 30% aðspurðra barna í 5. -7. bekk þekki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. mbl.is/Ómar Óskarsson
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var fullgildur á Íslandi árið 2002 og …
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var fullgildur á Íslandi árið 2002 og lögfestur 2013. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is