Því miður urðu laun „neikvæð“

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Ómar

Forsvarsmenn Landspítalans segja að frádráttur vegna verkfalls eigi sér stað óháð því hvort um vinnuskyldu á verkfallsdögum sé að ræða eða ekki.  Þeir taka fram að það sé miður að laun hafi orðið „neikvæð“ hjá nokkrum starfsmönnum um þessi mánaðamót.

Þau laun séu þó ekki innheimt sérstaklega heldur gerð upp þegar verkfall leysist.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem hefur verið birt á vef Landspítalans. 

Þar segir, að starfsmenn spítalans í fjórum félögum BHM hafi nú verið í verkfalli í fjórar vikur og að fyrstu launagreiðslur frá því að verkfall hófst hafi verið um nýliðin mánaðamót.

„Fjársýsla ríkisins sér um frádrátt í verkföllum í samræmi við reglur sem fjármálaráðuneytið setur. Samkvæmt þeim á frádráttur vegna verkfalls sér stað óháð því hvort um vinnuskyldu á verkfallsdögum er að ræða eða ekki,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir, að verkfall ljósmæðra sé boðað á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum.

Ef starfsmaður á ekki vinnuskyldu á þessum dögum kann sá hinn sami að álíta að enginn frádráttur eigi að eiga sér stað. Svo er þó ekki. Það eru 12 virkir dagar sem falla á boðaða verkfallsdaga í apríl. Það gera 55% af meðalmánuðinum (21,67 dagar). Því er dregin af öllum 55% af reglulegum mánaðarlaunum vegna verkfalla í apríl,“ segir ennfremur.

Einnig kemur fram, að ríkið hafi kært verkfallsboðun Ljósmæðrafélags Íslands og Félags íslenskra náttúrurfræðinga. Vegna þessa hafi ekki dregið af fyrirframgreiddum launum þann 1. apríl, eins og annars hefði verið gert, og því hafi félagsmenn þessara félaga sem séu á fyrirframgreiðslu fengið tvöfaldan frádrátt nú, þ.e. eftirá vegna apríl og fyrirfram vegna maí.

„Því miður varð þetta til þess að laun urðu „neikvæð“ hjá nokkrum starfsmönnum um þessi mánaðamót. Þau laun eru þó ekki innheimt sérstaklega heldur gerð upp þegar verkfall leysist.“ 

Fékk mínus 25 þúsund í laun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert