Hóta að leita til dómstóla

Frá samstöðufundi BHM við fjármálaráðuneytið.
Frá samstöðufundi BHM við fjármálaráðuneytið. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Bandalag háskólamanna hefur gefið ríkinu fimm daga frest til að „leiðrétta án tafar þá misbresti sem hafa verið á launagreiðslum“ í yfirstandandi verkföllum. Meðal annars er um að ræða greiðslur til vaktavinnufólks, t.d. ljósmæðra, og þeirra sem kallaðir eru til starfa á grundvelli undanþáguheimildar kjarasamningslaga.

Komi ekki til leiðréttingar muni BHM leita til dómstóla „án frekari fyrirvara“.

Þetta kemur fram í bréfi Stefáns Aðalsteinssonar, framkvæmdastjóra BHM, til Gunnars Björnssonar, skrifstofustjóra í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Það er dagsett í gær, 7. maí.

Þar kemur fram að um sé að ræða ólík tilvik, sem eru útlistuð í minnisblaði sem einnig var sent ráðuneytinu.

Í bréfinu segir m.a.:

„Öll þarf að færa til betri vegar en brýnast er þó að þegar í stað verði leiðrétt röng framganga gagnvart vaktavinnufólki eins og til dæmis ljósmæðrum. Þar hefur ríkið ákveðið einhliða án samráðs að túlka það svo að yfirstandandi verkfall taki til 60% af starfi hverrar ljósmóður og greiða laun í samræmi við það. Þessi framsetning er röng sama hvernig á er horft. Í fyrsta lagi er horft framhjá því að ljósmæður eru vaktavinnustétt sem sinnir störfum alla daga vikunnar ekki einungis virka daga. Ef beitt væri hlutfallsútreikningi eins og þeim sem ríkið hefur hagnýtt væri réttara hlutfall nær 45% frekar en 60%. Í annan stað er almenn hlutræn skerðing án tillits til einstaklingsbundinna réttinda hvers félagsmanns röng og stenst ekki ráðningarsamning hvers og eins. Einstaklingarnir leggja hver um sig niður sín störf til að knýja á um sameiginlega hagsmuni. Því fer fjarri að þar með séu þeirra einstaklingsbundnu réttindi fyrir borð borin, þvert á móti ber hverjum og einum það sem ráðningarsamningur viðkomandi kveður á um í samræmi við vinnuframlag hvers og eins. Þar sem vaktavinnufólk vinnur eftir fyrirfram útgefinni vaktskrá er hægur vandi að staðreyna það hve mikið hver um sig ber úr býtum að teknu tilliti til þátttöku í verkfalli, engin þörf er á hlutrænni skerðingu byggðri á rangri prósentu.

 Jafnbrýnt er að leiðrétta þá framkvæmd að þeim sem kallaðir eru til starfa á grundvelli undanþáguheimildar 20. gr. kjarasamningalaganna sé greitt annað og minna en sem nemur útkalli til dæmis þriggja stunda yfirvinnulaun, sem kveðið er á um í grein 2.3.3.1. í kjarasamningi Dýralæknafélags Íslands. Vart þarf um það að fjalla að starfsmenn sem eru í verkfalli sinna ekki reglulegum vinnutíma og því engar forsendur til annars en að túlka tilvitnað lágaákvæði á þann máta að það að kalla starfsmann til starfa samkvæmt 20. gr., sbr. 21. gr. sömu laga feli í sér útkall.“

Stefán segir í bréfinu að með vísan til þess hve framkvæmdin sem ríkið hefur viðhaft varðandi launagreiðslur sé íþyngjandi, sýnist einboðið að með henni hafi ríkið í hyggju að hafa áhrif á framkvæmd verkfallanna. Slíkt sé ólögmætt.

Þá segir: „Skorað er á ríkið að leiðrétta án tafar þá misbresti sem hafa verið á launagreiðslum.  Verði eigi bætt úr innan 5 daga mun verða leitað fulltingis dómstóla án frekari fyrirvara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert