Annars flokks læknisfræði stunduð

Mynd úr safni
Mynd úr safni mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Stjórnendur Landspítalans hafa þungar áhyggjur af því að annars flokks læknisfræði sé nú stunduð á spítalanum vegna langvarandi verkfallsaðgerða. Hefur yfirlæknir skurðlækningadeildar meðal annars sagt að krabbamein, sem lækna má við venjulegar aðstæður, geti orðið ólæknanlegt á meðan sjúklingur bíður eftir myndatöku.

Greint er frá þessu á vef RÚV.

Fram kemur í svari forstjóra Landspítalans við fyrirspurn landlæknis að flestar deildir spítalans, sem þurfa á rannsóknarþjónustu að halda, telja að áhrif verkfalla á spítalann séu erfiðari nú en í því ástandi sem skapaðist við kjaradeilu lækna. Mun erfiðara er nú að hafa yfirsýn auk þess sem undanþágubeiðnir eru sjaldan samþykktar.

Eitt þeirra atriða sem landlæknir vildi fá upplýsingar um var hversu oft meðferð krabbameinssjúklinga hefði raskast vegna verkfalla.

Kemur fram í áðurnefndu bréfi, þar sem vitnað er til tveggja yfirlækna, að verkfall Bandalags háskólamanna hafi raskað starfseminni mikið. Reynt er að framkvæma nauðsynlegustu rannsóknir tímanlega svo sjúklingar skaðist ekki.

Þrátt fyrir þetta hefur töf orðið á að hefja lyfjameðferð hjá nokkrum sjúklingum auk þess sem biðlistar eftir geislameðferð hafa lengst að undanförnu.

Þá eru einnig tilvik þar sem rof hefur orðið á lyfjameðferð sjúklinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert