Setji alla orku í hjúkrunarfræðinga

Nokkuð tómlegt verður á Landspítalanum ef rúmlega fimmtungur starfsmanna leggur …
Nokkuð tómlegt verður á Landspítalanum ef rúmlega fimmtungur starfsmanna leggur niður störf. Ómar Óskarsson

Alla orku ætti að setja í að ná samningum við hjúkrunarfræðinga svo ekki komi til ótímabundins allsherjarverkfalls félagsmanna Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga á miðnætti miðvikudaginn 27. maí nk.

Þetta segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, í samtali við mbl.is. Í morgun lá fyrir samþykki hjúkrunarfræðinga fyrir verkfallsboðun og leggja því rúmlega tvö þúsund hjúkrunarfræðingar niður störf að óbreyttu þennan dag.

„Ég tel að það verði að afstýra verkfallinu og það sé afar mikilvægt að ná samningum fyrir 27. maí svo það komi ekki til verkfalls. Við höfum tíma til stefnu, ég held að það ætti að setja alla orku í það að deiluaðilar nái saman og ná samningum,“ segir Sigríður. Um 1.400 hjúkrunarfræðingar starfa á Landspítalanum en í heildina starfa um fimm þúsund manns á spítalanum.

Sjúklingum getur hæglega versnað

Ekki leggja þó allir hjúkrunarfræðingar niður störf. Hluti þeirra verður áfram í vinnu til að tryggja öryggi sjúklinga samkvæmt undanþágulistum sem liggja fyrir.  

„Við setjum alla okkar orku í að sinna því sem er bráðast og tryggja að því sé sinnt. Það er aðeins hluti af okkar venjulegu hlutverkum að sinna því, við erum líka að með flóknari starfsemi sem má bíða en alls ekki endalaust. Hún situr alltaf á hakanum og sjúklingur sem bíða eftir slíkum úrræðum getur hæglega versnað á þeim tíma sem þeir bíða. Þeir geta orðið bráðveikir líka. Þetta er mikið óvissuástand sem skapast,“ segir Sigríður.

Á næstu dögum mun Sigríður og fleira starfsfólk vinna að því útfæra áætlanir um starfsemi sjúkrahússins, kæmi til verkfalls.

„Það verður ekki horft framhjá því að þetta kemur ofan í önnur verkföll sem eru verulega farin að segja til sín. Þetta eykur enn á vandann ef til þess kæmi.“

Hjúkrunarfræðingar hafa samþykkt verkfallsboðun.
Hjúkrunarfræðingar hafa samþykkt verkfallsboðun. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert