Ekki í stríði við starfsmenn Fiskistofu

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég hef hvorki verið í keppni né stríði við starfsmenn Fiskistofu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Áform hans um að flytja Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar hafa mætt mikilli andstöðu. Ekki síst frá starfsmönnum stofnunarinnar. Í bréfi til Fiskistofu í dag kemur fram að starfsmennirnir fái að velja hvort þeir starfi áfram á höfuðborgarsvæðinu eða flytjist til Akureyrar.

„Það hafa verið ólík sjónarmið um það hvernig standa skuli að þessu og kom umboðsmaður Alþingis með skýrar leiðbeiningar um að hægt hefði verið að gera þetta með vandaðri hætti. Ég hef tekið það til mín og hlustað eftir því. Í fyrstu var talað um ákveðin tímamörk í flutningunum og það væri æskilegt að þeir gerðust hraðar en hægar. Við það að fara yfir málin, meðal annars með samtölum við starfsmenn og fiskistofustjóra, höfum við komist að því að það gæti styrkt starfsemina enn frekar að gera þetta á lengri tíma,“ segir Sigurður.

Nánar verður rætt við Sigurð Inga í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is