„Fullnaðarsigur“ starfsmanna Fiskistofu

Starfsmenn Fiskistofu voru ósáttir við ákvörðun ráðherra um að flytja …
Starfsmenn Fiskistofu voru ósáttir við ákvörðun ráðherra um að flytja stofnunina norður til Akureyrar. mbl.is/Þórður

Mikil gleði ríkir hjá starfsmönnum Fiskistofu með þá ákvörðun ráðherra að gefa þeim val um að starfa áfram á höfuðborgarsvæðinu eða flytja með höfuðstöðvum hennar til Akureyrar, að sögn Guðmundar Jóhannessonar, deildarstjóra hjá stofnuninni. Hann telur niðurstöðuna fullnaðarsigur starfsmanna.

Sigurður Ingi Jóhannsson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sendi fiskistofustjóra bréf í dag þar sem tilkynnt er um breytingar á tilhögun áformaðs flutnings höfuðstöðva Fiskistofu til Akureyrar. Flutningurinn verður að veruleika ef frumvarp þess efnis verður samþykkt en starfsmenn munu eiga val um að starfa áfram á höfuðborgarsvæðinu eða flytja með stofnuninni norður. Fiskistofustjóri sjálfur flyst hins vegar til Akureyrar og ræður hann hvar nýir starfsmenn sem verða ráðnir munu starfa.

„Þetta er mjög jákvætt innlegg frá ráðherra þetta bréf og við teljum að þetta sé nánast fullnaðarsigur hvað það varðar að það þarf enginn starfsmaður að flytja, einungis fiskistofustjóri. Það er ekki horfið frá þessum áformum ráðherra að flytja höfuðstöðvarnar til Akureyrar en það verður þá gert með starfsmannaveltu en ekki þvingun á þriðja tug starfsmanna eins og við upphaflega ákvörðun. Það er mikil gleði hér hjá starfsmönnum,“ segir Guðmundur sem er deildarstjóri veiðieftirlitssviðs og einn talsmanna starfsmanna Fiskistofu.

Framhaldið meira í höndum fiskistofustjóra

Hann segir að á bilinu 15-20 manns hafi sagt upp störfum frá því að tilkynnt var um ákvörðun ráðherra að flytja stofnunina til Akureyrar síðasta sumar. Um helmingur þeirra hafi hætt vegna áformanna um að flytja hana.

„Við erum auðvitað búin að missa alltof marga frá okkur en við vonum að þetta rói þá sem hafa verið í virkri atvinnuleit þannig að það komist á betri vinnuandi hérna og starfsemin komist af stað aftur,“ segir Guðmundur.

Þau lausu störf sem ráðið verður í færast væntanlega norður, að sögn Guðmundar. Munurinn sé hins vegar að ákvörðunin um það verði nú meira í höndum fiskistofustjóra „og hægt að gera þetta með þarfir stofnunarinnar í huga, ekki bara með valdboði,“ segir Guðmundur.

„Það er í okkar huga alger sigur og ég leyfi mér að segja fullnaðarsigur,“ segir hann.

Fyrri frétt mbl.is: Starfsmenn Fiskistofu fá val um flutning

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert