Í sömu fötunum í mánuð

Júlíanna Ósk klæðist sömu fötunum í mánuð.
Júlíanna Ósk klæðist sömu fötunum í mánuð. ljósmynd/Úr einkasafni

„Hugsunin er sú að kaupa minna og nota það meira, því það er virkilega orðið of mikið af öllu í heiminum,“ segir Júlíanna Ósk Hafberg fatahönnunarnemi, sem á dögunum ákvað að gera tilraun til þess að ganga í sömu fötunum í mánuð.

Hugmyndin kviknaði hjá Júlíönnu eftir að hún fór að fylgjast með fólki sem lifir svokölluðum ómenguðum lífstíl (e. zero waste lifestyle). Fólk sem lifir eftir því hendir engu og kaupir ekkert í umbúðum. Er það yfirleitt ekki með rusl á heimilinu, og reynir þannig að sporna gegn ruslmengun í heiminum.

Breytt viðhorf í fatahönnun

„Mér fannst þetta mjög áhugavert því ég hugsa mikið um þau áhrif sem við höfum á jörðina og þá sérstaklega eftir að ég byrjaði í fatahönnun,“ segir Júlíanna og bætir við að viðhorf hennar hafi breyst þegar hún varð meðvitaðri um það hversu mikið af efnum og vatni fer í föt sem framleidd eru. Eftirspurnin sé þó alltaf mikið og þar af leiðandi sé gríðarlega mikið framleitt.

Eftir að hafa lesið grein um konu í Bandaríkjunum sem klæddist alltaf sömu fötunum í vinnunni, vegna pressu um faglegan klæðaburð á vinnustað, ákvað Júlíanna að fara sína eigin leið. „Þetta var smá innblástur fyrir mig en ég er ekki í vinnu svo mig langaði að prófa þetta bara yfir höfuð,“ segir hún. 

Vildi að fólk tæki eftir því að hún væri í því sama

Júlíanna stundar nám við Listaháskóla Íslands en er nú í skiptinámi í bænum Kolding í Danmörku. Í ferð sinni til Kaupmannahafnar á dögunum ákvað hún svo að kaupa tvö sett af buxum og skyrtum og fór svo af stað með tilraunina á mánudaginn í síðustu viku. Ástæða þess að Júlíanna ákvað að kaupa fötin en nota ekki föt sem hún átti fyrir var sú að hún þurfti tvö sett til að geta þvegið þau á milli og skipt. Jakka, peysu og skó sem hún notar við átti hún þó fyrir.

„Það að kaupa fötin var það sem skipti minnstu máli fyrir mig, ég vissi að ég vildi að þetta væri ekki alveg svart því ég vildi að fólk myndi taka eftir því að ég væri alltaf í því sama,“ segir hún. Fötin þvær hún öll í höndunum, enda segir hún það algjöra vatnseyðslu að þvo þau í þvottavél.

Hefur verið líkt við Steve Jobs og Einstein

Júlíanna segir fyrstu vikuna hafa gengið vonum framar. „Þetta er búið að vera frábært og algjör snilld. Ég finn ekkert fyrir því að ég sé alltaf í því sama og er ekkert meðvituð um það svo það truflar mig ekkert,“ segir hún og heldur áfram. „Mér líður ótrúlega vel með þetta og betur ef eitthvað er. Það er alltaf svo mikil pressa að maður setji hlutina mismunandi saman og sé töff og kúl en það er bara í hausnum á manni. Það er óskrifuð regla sem allir halda að þeir þurfi að fylgja en ég hef komist að því að það er alls ekkert þannig.“

Júlíanna segist hafa fengið afar góð viðbrögð frá fólki og margir hafi sagt henni að þeir vilji prófa þetta líka. „Mér finnst það ótrúlega gaman. Ég gerði þetta fyrst og fremst fyrir mig en ef maður getur haft áhrif út á við þá er það æðislegt.“ Þá hefur henni verið líkt við Steve Jobs og Einstein sem báðir gengu yfirleitt í sömu fötunum, en sumir virðast þó hafa áhyggjur af því að hún þvoi fötin ekki inn á milli.

Þægilegt að þurfa ekki að skipta um föt

Síðustu vikuna hefur Júlíanna farið á ýmsa ólíka viðburði þar sem fólk er misjafnlega fínt klætt, en alltaf hefur hún verið í sömu fötunum. „Á föstudaginn vorum við með matarboð og fórum svo í bæinn en ég var bara algjörlega í öllu því sama. Ég fann ekkert fyrir því að ég væri ekki fín og leið ótrúlega vel. Svo var líka svo þægilegt að þurfa ekki að fara heim og skipta, ég setti bara á mig varalit og það var ekkert vesen.“

Í vikunni fór hún einnig í fermingu hjá frænda sínum á Jótlandi og segist ekki hafa fundið fyrir breytingu þar heldur. Þá hafi það verið afar þægilegt að þurfa ekki að pakka neinu ofan í tösku og geta ferðast léttar en nokkru sinni. 

Vill ekki falla í gildruna sem tískuheimurinn er 

Júlíanna segir það hafa breytt viðhorfum sínum mikið að prófa að lifa minimalísku lífi, en það kalli fram viljastyrk og einbeitni að sýna hver hún er og hvað hún vill með eins fáum hlutum og mögulegt er. 

„Það eru allir svo mikið að keppast um að sýna sinn eigin stíl og hver þau eru með því að vera alltaf í einhverju nýju og flottu, en að vita hver þú ert og vera með sértækari stíl sýnir miklu meiri styrkleika. Fólk virkar sjálfstraustara ef það veit hvað það vill í stað þess að fylgja eftir öllum tískustraumunum því þá er það að falla í gildruna sem tískuheimurinn er,“ segir hún og hlær að þversögninni í því að vera nemi í fatahönnun en hafa slík viðhorf við tískuheiminum. „Maður er bara svo ótrúlega litaður af þessum stóru fyrirtækjum. Þetta snýst allt um peninga, þau búa til trend til að búa til meiri peninga og svo fellur maður í þessa gildru.“

Óþarfi að eiga fimmtíu hálsmen

Júlíanna segist vera farin að hugsa öðruvísi og tilraunin hafi breytt hugsanahætti hennar til frambúðar. „Maður er svo mikið að hafa áhyggjur af þessu þegar maður er að fara eitthvert en þetta er bara að angra mann sjálfan og hefur ekki áhrif á neinn annan. Maður er bara sjálfur að gera sér þetta og það eru allir með sömu hugsanir um sjálfa sig,“ segir hún. „Maður þarf ekki að eiga allt. Maður þarf ekki að eiga þrjátíu varaliti, fimmtán naglalökk og fimmtíu hálsmen. Ég sé það svo mikið núna hvað það er fráleitt.

Þá segir hún ýmislegt hafa komið sér á óvart í ferlinu. „Í fyrsta skipti sem ég þvoði fötin í vaskinum kom það mér til dæmis á óvart hversu mikill litur kom úr buxunum. Vatnið var dökkbrúnt af lit og ég skipti um vatn fimm sinnum. Ég veit að það er fullt af efnum í fötum enda læri ég um það í skólanum en hingað til hef ég ekki alltaf þvegið föt þegar ég kaupi þau. Þarna sá ég hins vegar hversu mikið af efnum liggja í fötunum okkar og ég var búin að vera í þeim. Húðin okkar er mjög viðkvæm fyrir þessu og tekur inn fullt af efnum án þess að við gerum okkur grein fyrir því.

Allir hefðu gott af því að prófa

Júlíanna segist jafnvel tilbúin að halda áfram að ganga í sömu fötunum eftir mánuðinn. „Þetta er svo ótrúlega frelsandi og ég hef verið algjörlega frelsuð frá þessari hugsun og þarf ekki að pæla í þessu.“ Þá segist hún jafnvel farin að hugsa um það hversu fínt væri að ferðast í sumar ef hún þyrfti ekki að pakka jafnmiklu og venjulega, og jafnvel væri hún tilbúin að klæðast sömu fötunum í skólanum á Íslandi í haust. 

„Ég held að allir hefðu gott af því að prófa þetta. Maður gerir sér svo mikið grein fyrir því hvað maður þarf og þarf ekki. Það er offramleiðsla því fólk er endalaust að kaupa og það hefur vond áhrif á jörðina og okkur þó við kjósum að hugsa ekki um það. Þetta mun hafa mikil áhrif á það hvernig ég hugsa framvegis.

Hér má fylgjast með tilraun Júlíönnu á bloggsíðu hennar og hér má fylgjast með henni á Instagram.

Júlíanna þarf ekki að hafa hausverk yfir því hverju hún …
Júlíanna þarf ekki að hafa hausverk yfir því hverju hún klæðist næsta mánuðinn. ljósmynd/Júlíanna Ósk
Júlíanna segir viðhorf sín hafa breyst mikið, og henni líði …
Júlíanna segir viðhorf sín hafa breyst mikið, og henni líði afar vel með tilraunina. ljósmynd/Úr einkasafni
Júlíanna fór í fermingu í vikunni þar sem hún klæddist …
Júlíanna fór í fermingu í vikunni þar sem hún klæddist fötunum. Móðir hennar var þó heldur hátíðlegri í klæðaburði. ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert