„Veðrið alltaf verra inni en úti“

„Veðrið er alltaf verra inni en úti,“ segir María Ögn Guðmundsdóttir hjólaþjálfari sem stóð fyrir svokölluðu Stelpusamhjóli í Reykjavík í morgun. Um 260 konur höfðu boðað komu sína á viðburðinn, en nokkuð heltist úr lestinni vegna afleitrar veðurspár fyrir morguninn, en þá sást fyrsta rigningin á höfuðborgarsvæðinu í marga daga.

„Þátttakendur voru um 150 og fóru bara á sínum hraða. Mörgum hefði aldrei dottið í hug að fara út í þetta veður að fyrra bragði, en þær bara klæddu sig vel og höfðu gaman,“ segir María. Tvær leiðir voru í boði, annars vegar tæplega nítján kílómetra hringur og hins vegar 26 kílómetra hringur. Eftir fjörið hittust konurnar á upphafspunkti ferðarinnar, í verslun Arnarins í Faxafeni, þar sem þær áttu notalega stund yfir súpu og kökum.

„Konurnar voru allar blautar í fæturna, en allar virkilega glaðar,“ segir María.

Konum vantar að eiga áhugamál

Hún er með vefinn Hjólaþjálfun.is og stendur fyrir námskeiðum og fyrirlestrum, auk tveggja kvennahjólaviðburða á ári. Hjólað er á malbiki á vorin, líkt og í dag, en á haustin stendur hún síðan fyrir torfæruhjólreiðaferð. Hún segir mikilvægt að efla hjólreiðaiðkun kvenna og þykir vanta að konur eigi sér áhugamál.

„Ég hef mikið beitt mér í því að fá konur til að fara út að leika sér, efla heilsuna og fá áhugamál saman. Karlarnir eiga ekkert í vandræðum með að finna sér áhugamál, en konum vantar meira svona. Þessar hjólreiðasamkomur eru í raun bara eins og úti-saumaklúbbar.“

María segir hjólreiðaiðkun ekki spyrja um aldur. „Þetta er mjög heppileg íþrótt, því nánast sama í hvaða formi þú ert þá geturðu hjólað og notið útiverunnar. Aldur er afstæður í hjólreiðum og það hafa allir gott af því að fara út og leika sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert